Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hin skynsama kona- og hinn blindni maður

Nú þegar styttast fer í kosningar fara skoðanakannanir að dynja enn meir á almenning, hið minnsta ein á dag. Og margar af þessum skoðanakönnunum sýna oft mismunandi niðurstöður, og fólk veltir því oft fyrir sér af hverju það sé? Ástæðan er nú oftast sú að fyrirtækin beita ólíkri aðferðafræði við gerð kannanna, og ýmis atriði þurfa að vera í lagi til þess að kannanir verði marktækar. En ég ætla þó ekki að skrifa grein um aðferðafræði fyrirtækjanna, heldur hvað það er sem er sameiginlegt með flestum könnunum. 

Það merkilega við þessar kannanir er hversu hátt hlutfall þátttakanda eru óákveðin, og mestur hluti af þeim sem eru óákveðin eru konur. Einhverjir finnast það veikleikamerki að vera óákveðin fyrir kosningar, og jafnvel sumir ganga það langt að segja að þetta sé týpískt fyrir konur að geta aldrei ákveðið sig. En ég held að þetta sé aðeins jákvætt að konur séu enn óákveðnar, því það sýnir að konur nota skynsemina og gagnrýna hugsun þegar þær velja sér hvaða flokk þær ætla að kjósa í vor. 

Það sýnir þroska og skynsemi að skoða málefni flokkanna með gagnrýnum augum í staðinn fyrir að elta leiðtoganna í blindni. En því miður virðist, sem stærsti hluti karlmanna sem ekki hafa þennan þroska til að líta á flokkanna gagnrýnum augum, og þá sérstaklega þá flokka sem þeir ætla að kjósa í vor. Ég rökræði mjög oft við unga sjálfstæðismenn, og ég spyr þá ávallt, af hverju kýst þú Sjálfstæðisflokkinn? En svo virðist vera að ég hafi verið að spyrja þá um tilgang lífsins, og þeir stara á mig heillengi og loksins kemur svarið, thja, ja, bara af því að afi og pabbi hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er öll gagnrýna hugsunin hjá mörgum ungum sjálfstæðismönnum. Í raun er þetta ekki einungis hjá ungum sjálfstæðismönnum, heldur líka framsóknarmönnum, svo virðist vera að ungir karlmenn kjósi þessa tvo flokka einungis vegna þess að afi og pabbi hafi kosið þá. Einnig er flokkshollusta hve mest hjá Sjálfstæðisflokknum, og karlmenn eru hve hliðhollastir Sjálfstæðisflokknum. En núna hefur Sjálfsstæðisflokkur verið við völd í 16 ár, og 12 ár með Framsókn, og ef lítið er á ástandið í dag þá er verðbólga ca. 5,9%, stýrivextir 14,25%, viðskiptahalli nærri því 19% af landsframleiðslu og ójöfnuður aukist mjög, og ég spyr þá, eru sjálfsstæðismenn virkilega ánægðir með þetta umhverfi? Og það er mjög merkilegt að þrátt fyrir slaka hagstjórn flokkanna, þá eru menn samt sem áður hliðhollir sjálfsstæðisflokknum. Ég tel því miður, að margir fylgismenn sjálfsstæðisflokks og þá sérstaklega karlmenn séu eins og blindir kettlingar sem elta foringjanna hvert sem er, og ef þeir rekast á vegg, þá halda þeir samt áfram að elta. Merkilegt, ekki satt? 

Oft er sagt að konur séu menn, en menn eru samt engar konur, í þessu tilviki því miður. Ég vildi nú að fleiri karlmenn tækju konur sér til fyrirmyndar og tækju sinn tíma til að líta flokkanna gagnrýnum augum, vega og meta málefni flokkanna, og taka síðan ákvörðun byggt á mati þeirra.Stjórnmálafræðingar hafa oft sagt að sá flokkur sem nær konum á sitt band, mun ná langt í kosningunum, eða má kannski segja að sá flokkur sem nær til þeirra skynsömu mun vegna vel í kosningunum. Reyndar hefur komið í ljós að konur kjósi frekar til vinstri, og því eru þær ekki aðeins skynsamari en karlar hvað varðar að ákveða flokk, heldur eru þær oftar en ekki skynsamari í kosningaklefanum. Ég er því ekki hræddur um kosningarnar þann 12. maí, því ég veit að þau óákveðnu velja það skynsamasta að þeirra mati, og meir get ég ekki beðið um. Ég vona því að menn verði konur hvað kosningahegðun varðar þann 12. maí næstkomandi. 

Góðar stundir, 

Sölmundur Karl Pálsson


Íþróttir eru víst þjóðfélagslega hagkvæmar!

Michael JordanÉg tel mig mjög heppinn að hafa fengið að alast upp við íþróttir, maður spilaði lengi vel körfuknattleik og æfði knattspyrnu til að halda sér í formi yfir sumartímann. Þegar ég var ekki á æfingum, þá fór allur tíminn í að spila körfuknattleik við félagana. Ég tel að íþróttir hafi gert mig að betri manneskju, og í þeim lærði maður að spila saman í liði, sem er mikilvægt í pólitíkinni. Einnig var það þessi sigurvilji sem rak mann áfram, og maður hugsaði alltaf sem sigurvegari, og maður gerir það ennþá í dag. Þrátt fyrir að hafa lagt skóna á hilluna, þá eiga íþróttir stóran þátt í lífi manns. Þó ég spili ekki jafn oft körfuknattleik, eða knattspyrnu, fer mikill tími hjá manni að horfa á þessar íþróttir, og pæli daglega í þeim, og síðan er ég það heppinn að hafa fengið að skrifa um leiki Þórs í körfunni í vetur. Ég hef lengi trúað því að íþróttir séu þjóðfélagslega hagkvæmar, og talið aðra trú um að íþróttir geri börnum okkar að betri þjóðfélagsþegnum. En því miður hef ég ekki geta sýnt fram á það í tölum, en það breyttist í dag.

Í gær (Föstudag) fór ég á mjög merkilegan fyrirlestur hjá fyrrverandi afrekskonunni Þórdísi Gísladóttir, en hún hélt fyrirlestur um hagrænt gildi íþrótta í Íslensku nútíma samfélagi. En þessi fyrirlestur er unninn úr master ritgerðinni hennar, og má segja að þessi fyrirlestur og ritgerð hennar marki þáttaskil í umræðu um íþróttir, enda kom margt merkilegt í ljós. Margir gera sig ekki grein fyrir hversu stór Íþróttahreyfingin er, en hún samanstendur af 157.372 félagsaðildum, 117.645 félagsmenn og 69.153 iðkendur. Og það kom ekki á óvart að 64% af stelpum á aldrinum 10-14 ára stunda íþróttir, en sú tala fellur niður í 33% á aldrinum 15-19. Sama þróun á við hjá okkur strákunum, en 70% stráka á aldrinum 10-14 ára stunda íþróttir en sú tala fellur niður í 47% á aldrinum 15-19 ára. Þetta mikla brottfall þurfum við að skoða betur, og finna lausnir. Hins vegar voru gleðifréttirnar þær að íþróttaiðkun eykst aftur hjá aldrinum 40-60 ára, en þar á golf íþróttinn mikinn þátt í þeirri aukningu.

En ef við höldum áfram að kryfja íþróttahreyfinguna niður, þá tilheyra 354 félög íþróttahreyfingunni, 513 deildir, 25 sérsambönd, 9 nefndir, 2 landssamtök og 27 íþróttabandalög og héraðsbandalög. Og flestir starfsmenn íþróttahreyfingarinnar eru sjálfboðaliðar. Margir gera sér ekki í hugarlund, hversu mikla vinnu þessir sjálfboðaliðar leggja á sig, og hreinlega fórna sér til þess að halda íþróttahreyfingunni gangandi. En það er talið að sjálfboðaliðarnir nái u.þ.b. 16.595 manns, og ef reiknað vinnuframlag þessa fólks, þá eru það 2 miljónir klukkustunda á ári, 250.000 ársverk og 995 dagsverk. Og Þórdís reiknaði virði vinnunnar sem fólkið vinnur í sjálfboðavinnu, og miðar við grunnskóla taxta, þá er áætlað að virði sjálfboðaliða í stjórnum og nefndum séu 4 miljarðar. Og heildarvirði sjálfboðastarfs innan íþróttahreyfingarinnar er metið á 7-8 miljarða króna, takk fyrir.

Einnig kom það í máli Þórdísar að sveitarfélög eru með 95% eða tæpa 9 miljarða af framlögum til íþrótta - og æskulýðsstarfs, á meðan ríkið sé aðeins með 5% sem gera tæpar 431 milljón króna. Því eru útgjöld sveitarfélaga til íþrótta og æskulýðsstarfs þriðji stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga. En þegar er rýnt bakvið þessar tölur sést að stærsti hlutinn fer í rekstur sundlauga, leikvalla, íþróttahúsa eða 50%, 16% fer í æskulýðsmála, 8% renna til félagsmiðstöðva og 20% renna þá sem styrkir til íþrótta og æskulýðsstarfa, og því væri nærri lagi að segja að 2,2 miljarðar renni til íþrótta og æskulýðsstarfs en ekki 9 miljarðar. Það sem kom mér kannski mest á óvart voru tekjur hins opinbera af íþróttatengdu starfi. En í máli Þórdísar kom fram að tekjur hins opinbera sé um 5,3 miljarðar. En þessir 5,3 miljarðar koma til vegna tekna sundlauga, skatta á launum íþróttakennara, virðisaukaskatt af smá vöru og leigu vegna íþróttasala. En Þórdís sleppir mörgum hlutum, og því er líklegra að félögin skili meir heldur en útgjöld sveitarfélaganna. Þessir 5,3 miljarðar þekja 64% af útgjöldum sveitarfélaga til íþrótta - og æskulýðsstarfs. En samt sem áður fá sveitarfélögin ekki tilbaka í samræmi við þau útgjöldin sem þau leggja til, því ríkið tekur mestan hluta af þessum 5,3 miljörðum króna, þrátt fyrir að eyða miklu minna til þessa málefnis en sveitarfélögin. Þetta tel ég nú mjög ósanngjarnt, og þetta þarf að laga sem fyrst.

Það hefur oft verið talað um að íþróttir hafa mikið forvarnargildi, og í fyrirlestri Þórdísar kemur það bersýnilega í ljós, og þá mikli sparnaður sem íþróttir eru  fyrir samfélagið. Samkvæmt Þórdísi er neikvætt samband milli reykinga og íþróttaiðkunar, þ.e. eftir því sem þú iðkar oftar, því minna reykir þú. En hún kemur að þeirri niðurstöðu að 97,7% af þeim sem æfa fjórum sinnum eða oftar í viku reykja ekki, eða minna en daglega. 93% af þeim sem æfa 2-3 sinnum í viku rekja ekki, eða minna en daglega og 91,1% af þeim sem æfa einu sinni í viku reykja ekki, eða minna en daglega. Sama má segja um íþróttaiðkun og áfengisneyslu, 90,3% af þeim sem æfa 3-4 sinnum í viku drekka ekki, 80% af þeim sem æfa 2-3 sinnum í viku drekka ekki heldur og 79,2% þeirra sem æfa 1 sinni í viku drekka ekki. Sömu tengsl eru á milli hass neyslu og iðkunar. Þórdís reiknaði þjóðfélagslegan sparnað íþrótta, og reiknaði hún kostnað vegna  vímuefna meðferðar einstaklings, og sýnir hún tvær leiðir, önnur eru stuðlar, en kostnaðurinn við það er 2.982.053 kr. fyrir einstakling, hinn kosturinn er götusmiðjan og kostnaðurinn við það er 1.744.275 kr pr. einstakling. En kostnaður við ungling vegna íþrótta í Reykjavík er um 17.209 kr, en 28.937 kr í Kópavogi, og ástæðan fyrir því að kostnaðurinn er hærri í Kópavogi er sá að Kópavogur greiðir niður íþróttagjöld en ekki Reykjavík.

Samkvæmt þessu sýnist mér og fleirum að Íþróttir séu þjóðhagslega hagkvæmar og þær skila öllu því sem þær fá frá hinu opinbera aftur til samfélagsins. Og síðan megum við ekki heldur gleyma því vinnuframlagi sem fólk vinnur í sjálfboðavinnu, og við megum vera þakklát fyrir að til sé fólk sem er reiðubúið að vinna fyrir félög án þess að taka við launum, þrátt fyrir að oft sé þetta 100% vinna. Og því tel ég nauðsynlegt að við hlúum að þessu enn betur, enda íþróttir ein af uppeldisstöðvum barna okkar, ekki satt?

 kv,

Sölmundur Karl Pálsson


Landsfundur búinn-Alvaran tekin við

Þá er helgin búinn og hversdagsleikinn tekinn við. En um helgina skrapp maður suður til Reykjavíkur á Landsfund Samfylkingar. Lagt var eldsnemma á föstudagsmorgni til að ná málefnavinnu sem átti að hefjast klukkan 13:00 í Egilshöll, og vorum við komnir um hálf eitt í bæinn. Málefnavinnann gekk ágætlega, og var ég í hóp sem fjallaði um ábyrga efnhagsstefnu og síðan nýtt atvinnulíf, en þeim hópi stjórnuðu þeir félagar Ágúst Ólafur Ágústsson og Einar Már Sigurðarsson. Reyndar var ég nokkuð rólegur, og leyfði öðrum um að tjá sig, þar sem ég var fyrir fundinn sammála þeirri stefnu sem Samfylkingin hefur lagt fram í efnahagsmálum. Loks um klukkan 16:00 setti formaðurinn Ingibjörg Sólrún fundinn formlega settan, og var ræðan hennar nokkuð góð, eins og fyrri daginn. Eftir henni stigu síðan Mona Sahlin og Helle Thorning -Schmidt á stokk, og fluttu áhugaverðar ræður, en mér fannst þó Dagur B. Eggertsson sló þó í gegn, þar sem hann virtist hafa náð í sitt kvenlega innsæi þegar hann var að þýða. Síðan fór maður til hennar Helgu í Dunhaga um klukkan 21:20 eða svo, enda þurfti maður að vakna snemma á laugardagsmorgunin.

Laugardagsmorgunin var tekinn snemma, enda var maður mættur um klukkan 09:00 í Egilshöllina, en á laugardeginum var farið yfir skýrslu formanns Framkvæmdarstjórnar, reikninga gjaldkera, síðan var kosið til ritara flokksins, en Helena Karlsdóttir mun starfa áfram sem ritari, einnig var kosið til gjaldkera. Loks var kosið til Framkvæmdarstjórnar, og þar var t.a.m. hann Magnús Már kjörinn inn, og vil ég hér með óska honum til hamingju með það, enda topp maður þar á ferð, en ásamt honum voru þau Margrét Gauja, Anna Guðnadóttir, Eva Kamilla, Helgi Pétursson og Eggert Herbertsson einnig kjörin, og vil ég einnig óska þeim velfarnaðar. Það var einnig kosið til flokksstjórnar. Síðan var samþykkt ályktanir og nokkur skemmtiatriði, eins og t.d. Baggalútur og Sprengihöllin stigu á stokk. Loks voru þau Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur endurkjörin Formaður og varaformaður flokksins, sem kom engum á óvart. Loks sleit síðan Ingibjörg landsfundnum um klukkan 18:00.

Verðandi ÞingmennUm kvöldið var síðan haldið lokahóf á Grand Hótel, og byrjaði sú skemmtun um klukkan 20:00. Komu nokkuð góð skemmtiatriði, t.d. Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson tróðu upp með virkilega góðum árangri, sem var bara hrein snilld. En mér fannst þó Magga Stína koma hvað mest á óvart bæði á Landsfundinum og síðan á skemmtuninni um kvöldið. Á landsfundinum spurði gamall þingmaður hana spurningar, sem hún svaraði með stakri snilld. En um kvöldið kom hún  skemmtilega á óvart, ég þóttist halda að hún væri sá frambjóðandi sem ég þekkti best til, en svo var ekki. Hún var heldur betur ein af stjörnum kvöldsins, og ég segi það alveg hlutlaust. Magga Stína sýndi um kvöldið að hún kynni að syngja, allavega syngur hún betur en ég, sem er reyndar ekki talið erfitt, og síðan er konan greinilega mikill grínisti, sem ég vissi reyndar fyrir, en þetta atriði hennar kom skemmtilega á óvart, og hver veit nema að hún taki atriðið sitt aftur við tækifæri. Hún mun kannski syngja þetta lag, ef hún kemst inn á þing eftir kosningar 12. maí. 

Ég hins vegar vildi að ég hefði getað skemmt mér eins vel og flestir aðrir, en því miður gat ég ekki notið landsfundarins, og lokahófsins eins vel og ég hefði óskað mér. Undanfarna tvo til þrjá mánuði hef ég átt í miklum vandræðum innvortis, sem erfitt er að útskýra hér, nema að ég á erfitt með að kyngja mat, sem og oft að halda honum niðri. Ég var því mjög slæmur innvortis um helgina, og ef einhverjum finnst ég hafa verið fúll eða eitthvað svoleiðis, þá er það einungis út af verkjum, engu öðru. Ætla í þetta eina skipti að skrifa um mitt líkamlega ástand, til að fyrirbyggja allan misskilning. En næsti Landsfundur er eftir tvö ár, þannig að vonum að ég verði betur upplagður, en núna er að styttast í kosningar, og við verðum öll að leggjast á við eitt, því við þurfum að fella ríkisstjórnina.

Sölmundur Karl Pálsson


Á ferð og flugi

Í dag sótti ég mjög áhugaverðan og skemmtilegan fund á Grand hótel sem bar yfirskriftina ,, jafnvægi og framfarir- ábyrg efnahagsstefna". Ég mætti ferskur rétt yfir átta leytið í morgun, enda átti fundurinn að byrja klukkan 8:30. Þegar ég mætti á svæðið, þá sá ég fólk í einum fundarsalnum, og taldi mig vera á hárréttum stað, en þegar ég kom inn í salinn, var mér fljótt snúið við, og sagt að fjármálaráðuneytið væri með fund í þessum sal, og þeir vildu víst ekki leyfa mér að fræða þá um ábyrgð í ríkisfjármálum og annað. En þegar ég fékk loks að vita hvaða sal þessi morgunfundur ætti að vera, beið ég nú bara rólegur eftir að hún MaggaStína mætti á svæðið, til að leiða mig í gegnum alla þessa þekktu þingmenn og aðra stjórnmálamenn sem mættu á fundinn. Eftir að við fundum sæti, þá biðum við bara eftir að fundurinn myndi byrja. Samfylkingin dreifði ritinu ,, jafnvægi og framfarir-ábyrgð efnahagsstefna", og Jón Sigurðusson frv. ráðherra og seðlabankastjóri kynnti niðurstöður ritsins, enda var Jón ritstjóri ritsins. Niðurstöður ritsins komu nú kannski ekki á óvart, enda hefur því miður ríkisstjórnin ekki staðið sig nógu vel í ríkisfjármálum eins og maður vildi, en ég á örugglega eftir að skrifa nánar um það síðar. Hins vegar á Jón Sigurðsson og hans fólk sem vann við ritið hrós skilið, enda var ritið vel unnið. Síðan þegar erindi Jóns Sigurðssonar lauk, þá tóku pallborðsumræður við, og þar sátu þau Jón Sigurðsson og Ingibjörg Sólrún undir svörum, auk þess sátu Hörður Arnarsson forstjóri Marel og Þóra Helgadóttir hagfræðingur í greiningardeild Kaupþings. Kom margt fróðlegt upp í þeim umræðum, enda er Hörður og Þóra afar fær á sínu sviðum. Fundarstjóri var síðan Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingar, og stóð hann sig mjög vel, enda var ekki búist við neinu öðru. En til að gera langa sögu stutta, þá var þetta mjög góður fundur og ég sé ekki eftir því að ferðast til Reykjavíkur, bara til þess að fara á þennan fund.

En þegar fundi lauk, þá var stefnan sett á vesturbæinn, og vil ég hér með þakka MögguStínu fyrir að gefa sér tíma til að skutla mér í vesturbæinn, enda algjör snillingur þar á ferð. En í hágdeginu, fór ég og Helgi vinur minn á Subway, og síðan eyddi ég mest öllum deginum heima hjá honum, þar sem við horfðum á þátt af Band of Brothers, snilldar þættir by the way. En ég átti síðan flug klukkan 18:30, en því seinkaði til klukkan 18:55, en í raun fór síðan flugvélin ekki fyrr en 19:10 eða svo í loftið, þannig að ég kom heim til Akureyrar um klukkan 20:00. Vil ég hér með þakka Helgu og Tedda fyrir gistinguna, og einnig þakka ég Helga fyrir móttökurnar i dag.

En Reykjavík er þó ekki alveg laus við mig, en ég fer á morgun (fimmtudag) í skólann, en síðan á föstudaginn mun ég snúa aftur til höfuðborgarinnar. En um næstu helgi verður Landsfundur Samfylkingar haldin, og verður þetta fyrsti Landsfundurinn minn, og vonandi ekki sá síðasti, enda er ég orðinn þvílíkt spenntur að fara á Landsfundinn. Ég og faðir minn munum leggja sko snemma af stað á föstudagsmorgun eða nánar tiltekið klukkan 08:00 um morgunin, enda viljum við ekki missa af miklu á Landsfundinum.

 

Sölmundur Karl Pálsson


Hvar er áhuginn?

Í fyrsta skipti í langan tíma langar mér í raun ekkert til að skrifa um þjóðfélagsmál, eða pælingar mínar eða neitt. Síðustu daga hef ég varla haft áhuga á að skrifa pistla eða annað slíkt, get hreinlega ekki komið orðum á blað, og í raun hef ég enga aðra skýringu á letí mínu við að blogga. Síðustu vikur hefur áhugin á skrifum minnkað töluvert, og eins áhuginn á stjórnmálum farin að dvína eitthvað örlítið. En ég nýt þess þó að aðstoða einn ákveðinn frambjóðenda, og það heldur mér líklega gangandi í pólitíkinni, enda ekki oft sem maður fær tækifæri til að aðstoða leiðtoga framtíðarinnar. En vonum þó að áhugin fari að vaxa aftur eftir páska, enda þá verður kosningabarátta flokkana farin á fullt. En ég kveð í bili, og vonandi kemur inn ferskur pistill inn sem fyrst hjá manni.

 kv,

Sölmundur Karl Pálsson


Höfundur

Sölmundur Karl Pálsson
Sölmundur Karl Pálsson
Nemi í samfélags- og hagþróunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þórsari, Nallari, en fyrst og fremst jafnaðarmaður.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband