Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Vel heppnaður Stjórnmálaskóli

Um helgina héldum við ungir jafnaðarmenn á Akureyri stjórnmálaskóla, við vorum búin að fá marga góða fyrirlesara til liðs við okkur. Við fengum t.d. Ágúst Ólaf varaformann Samfylkingar, Katrínu Júlíusdóttir og Kristján Möller alþingismenn, Birgir Guðmundsson lektor, Hermann Jón Tómasson formann bæjarráðs, Láru Stefánsdóttur frambjóðenda og svo loks Hildi Jönu Gísladóttur.

P3230021Á föstudagskvöldið klukkan átta byrjaði skólinn formlega, Margrét Kristín Helgadóttir skólastjóri setti skólan formlega, og eftir henni steig Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda og lagadeild Háskólans á Akureyri í pontu, og fræddi nemendur um íslenskan stjórnskipa, alþingiskosningar og fór rétt í stjórnmálasögu Íslands. Fyrirlestur Birgis var mjög áhugaverður, og skemmtilegur, og þó hann talaði í um tvo tíma, var aldrei dauður punktur. Margt merkilegt kom fram, og þá sérstaklega þegar hann fór að fræða nemendur um alþingiskosningar, og þá sérstaklega söguna sem og skoðanakannanir. Kom t.a.m. fram hjá Birgi að flokkar sem væru aðeins með eitt stefnumál, myndu líklega ekki ná langt í kosningunum 12. maí, og Birgir taldi m.a. að Vinstri Grænir myndu ekki halda þessu flugi sem þeir hafa verið á í skoðanakönnunum. Vil ég hér með þakka Birgi fyrir áhugaverðan fyrirlestur, og alveg hrein snilld að hann hafi gefið sér tíma til að halda fyrirlestur í stjórnmálaskólanum.

Nemendur vöknuðu snemma á laugardagsmorgunin, en klukkan tíu hófst fyrirlestur þeirra Hermanns JónsP3240027 Tómassonar oddvita Samfylkingarinnar hér á Akureyri, og Margrétar Kristínar Helgadóttur, sem er ein af efnilegustu stjórnmálamönnum landsins. Hermann fræddi nemendur um vinnu í sveitastjórnmálum, hvernig málefnasamningur er gerður, og fræddi einnig nemendur hver staðan er hér á Akureyri. Margrét Kristín hins vegar fræddi nemendur um sína hlið í sveitarstjórnmálum, hvernig það sé að vera ung í pólitík, og hennar starf sem formaður Samfélags- og mannréttindaráðs. Eiga þau bæði mikið hrós skilið fyrir góðan fyrirlestur, sem var mjög fræðandi fyrir nemendur eins og mig, sem hafa lítið verið inn í sveitastjórnarmálum.

Næst á eftir þeim kom Lára Stefánsdóttir,  hún fræddi nemendur um netið og stjórnmálamenn. Í fyrirlestri sínum kom hún inn á hvernig stjórnmálamenn geta nýtt sér netið til þess að koma sér á framfæri. Hún t.d. fræddi nemendur hvernig Björn Bjarnason hafi notfært sér netið til að koma sér í kynni við ýmist fólk, og með miklum dugnaði í skrifum á netinu, náð að skapa sér ákveðnar vinsældir. Lára gaf nemendum ráð til að nýta sér netið enn betur, þegar blogg skriftum er komið eða greinarskrifum. Þetta var mjög fróðlegur fyrirlestur, og á hún eins og allir aðrir hrós skilið. En þegar Lára var búinn að halda sinn fyrirlestur, var komið að hádegishléi, og beðið síðan eftir að Ágúst Ólafur og Katrín Júlíusdóttir myndu lenda á Akureyrarflugvelli.

Eftir hádegishléið, hélt Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar fyrirlestur um P3240089efnahagsmál, og var sá fyrirlestur mjög vel sóttur, og greinilegt að margir vilja fræðast um efnahagsmál fyrir komandi kosningar. Ágúst Ólafur fræddi nemendur fyrst um grunnhugtök hagfræðinnar, og síðan fræddi hann nemendur um stöðuna á Íslandi, og kom meðal annars fram að Íslendingar þurfa að fá stöðugleika í hagkerfið, því markmiði hefur ríkisstjórnin ekki náð. Sem gamall hagfræðinema, fannst mér þessi fyrirlestur mjög góður, og margt fræðandi í honum, og ég vona svo sannarlega að nemendur skólans hafi verið upplýstari um efnahagsmál eftir þennan fyrirlestur.

Eftir Ágústi kom Kristján Möller alþingismaður, og fræddi nemendur um alþingisstörf, og hvernig það er að vinna á þessum merka vinnustað. Fyrirlestur Kristjáns var mjög fræðandi, og gaman að fá smá innsýn í störf þingmanna. Eftir fyrirlestur Kristjáns, spruttu athyglisverðar umræður um vinnutíma alþingsmanna. Mönnum fannst vinnutími alþingismanna ekki fjölskylduvænn, og væri í raun skrítið að löggjafarþingið bryti sjálft vinnulöggjöfina. En þrátt fyrir þennan langa vinnutíma, og þá staðreynd að Alþingi er ekki fjölskylduvænan vinnustaður, þá væri hann þó eftirsóttur vinnustaður.

P3240111Loks kom Katrín Júlíusdóttir og Hilda Jana Gísladóttir með sína fyrirlestra. Katrín fræddi nemendur hvernig eigi að bera sig fram í ræðupúlti, og lét síðan nemendur koma fram og halda einnar mínútu ræðu. Kom þá í ljós að allir nemendur skólans voru frambærilegir ræðumenn. Loks fræddi Katrín nemendur, hvernig eigi að koma skoðun sinni á framfæri, og sýndi nemendum ýmiss dæmi úr blöðunum hvernig ætti ekki að skrifa greinar. Eftir Katrínu kom síðan Hilda Jana með fyrirlestur um fjölmiðla, og hvernig ætti að bera sig að í fjölmiðlum, og stóð hún sig með prýði, rétt eins og Katrín. En að lokum settu þær Katrín og Hilda Jana upp smá spjallþátt, og leyfði nemendum að æfa sig að rökræða og gekk það býsna vel.

Um klukkan sex, sleit síðan Margrét Kristín Helgadóttir skólastjóri skólanum. Margrét Kristín á mikið hrós skilið fyrir skólann, og þá sérstaklega skipulagningu og hvernig hún stjórnaði skólanum af mikilli nákvæmni. Og það er því ekkert skrítið að ég sem og fleiri teljum hana framtíðar bæjarstjóra eða jafnvel framtíðar ráðherra.P3240113

Sölmundur Karl Pálsson


Stjórnmálaskóli Samfylkingarinnar á Akureyri

Ungir Jafnaðarmenn á Akureyri munu halda stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar í Lárusarhúsi Eiðsvallargötu 18 um helgina, þ.e.a.s. dagana 23. - 24. mars. Skólinn er opinn öllum að kostnaðarlausu, og vil ég því hvetja alla til þess að mæta, enda skemmtilegir fyrirlestrar á dagskrá skólans. Ég hef verið það heppinn að fá tækifæri til að aðstoða Margréti Kristínu í að skipuleggja skólann, og hreint ótrúlegt hversu við höfum verið lánsöm með fyrirlesara. Það er því líka mikill heiður að fá að segja að Margrét Kristín verður einnig skólastjóri skólans, og býst ég við að hún verði hreint út sagt stórgóður skólastjóri. En ég hvet annars alla til að koma í stjórnmálaskólann, en það er ekki skylda að sitja allan skólann, en auðivitað væri það skemmtilegast. En fólk ræður því hvaða fyrirlestra þau vilja fara á, en að sjálfssögðu er mjög erfitt að velja bara einn fyrirlestur, margir góðir í boði. En dagskráin er eftirfarandi:

Stjórnmálaskóli Samfylkingarinnar 23. - 24. mars

Föstudagurinn 23. mars

20:00 Margrét Kristín Helgadóttir skólastjóri - setning stjórnmálaskólans

20:05 Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda og lagadeild HA - Íslensk stjórnskipan, alþingiskosningar og (ESB)

Laugardagurinn 24. mars

10:00 Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs og Margrét Kristín Helgadóttir formaður Samfélags- og mannréttindaráðs - sveitastjórnmál, meirihlutasamstarf og ungt fólk í pólitík

11:00 Lára Stefánsdóttir varaþingmaður - Stjórnmálamenn og netið

Hádegishlé

13:05 Ágúst Ólafur Ágústsson Varaformaður Samfylkingarinnar - Efnahagsmál

14:00 Kristján Möller og Einar Már Sigurðarson Alþingismenn - þingstörf og nefndarstörf

15:00 Katrín Júlíusdóttir Alþingismaður - framkoma í ræðupúlti - koma hugmyndum sínu vel á framfæri

16:00 Katrín Júlíusdóttir og Hilda Jana Gísladóttir - framkoma í fjölmiðlum

17:00 Margrét Kristín Helgadóttir skólastjóri - Slit stjórnmálaskólans

Ég hvet því alla Akureyringa og nærsveitarmenn að mæta í skólann, og fræðast aðeins um stjórnmál, og kynnast um leið frambjóðendum og alþingismönnum.

Sölmundur Karl Pálsson


Maðurinn á bak við tjöldin

John F. KennedySpaugstofan hefur oft gert grín af ýmsum hlutum, og ávallt eru þeir fyndnir, þó misjafnlega, en þeir munu þó aldrei toppa fyrstu ár sín, sem voru auðvitað ekkert annað en snilld, sérstaklega þegar Laddi var með þeim. Mér finnst þó einn sketch hjá þeim dálítið sérstakur, en það er sketchin ,,maðurinn á bak við tjöldin”, þeir sem horfa á spaugstofuna vita hvað ég er að tala um. En núna, þar sem kosningar eru að hefjast þá hef ég verið að hugsa um akkúrat þetta síðustu daga. Í öllu flokkastarfi er viss hópur sem þarf að skipa framvarðarsveit en hinir verða að vera bakvið tjöldin og styðja framvarðasveitina.Í stjórnmálum er þessi bakvarðasveit, mjög mikilvæg, og ef flokkur er með góða bakvarðasveit, þá skilar það sér oftast í sigrum. Flestir þeir sem hafa áhuga eða starfa eitthvað í stjórnmálum dreyma oft um að verða í eldlínunni, og þar er ég sjálfssagt enginn undantekning. En ég er hins vegar ekki að vinna í stjórnmálum, einungis til þess að koma sjálfum mér á framfæri, eða af einhverrji valdafíkn. Ég eins og margir, höfum einhverja hugsjón, sem ég vil koma á framfæri, og mér er nokkurn vegin sama hvort ég kem með minni hugsjón sjálfur á framfæri eða einhver annar komi með hugsjónina mína á framfæri.

Við erum gædd ólíkum eiginleikum, og enginn er eins, og því hef ég á síðustu vikum verið að velta því fyrir mér, hvort hlutverkið ég myndi fá í stjórnmálum. Ég hef ekki persónutöfranna hans John F. Kennedys eða Bill Clintons. Ég er kannski ekki jafn ákveðinn og Ingibjörg Sólrún eða Davíð Oddson, en ég er heiðvirtari en Richard M. Nixon, en það verða víst aðrir að dæma um það.En ég get víst ekki borið mig saman við þetta fólk, þar sem þau eru allt öðrum eiginleikum gædd en ég. Ég byggi mína hugmyndafræði á John F. Kennedy og Bill Clinton, síðan er ég auðvitað í sama flokki og Ingibjörg. En ástæðan fyrir því að ég nefni þetta fólk til sögunnar, er sú að þau hafa skapað sögunna, reyndar mismikið, Ingibjörg og Davíð hafa skrifað nöfn sín í Íslandssöguna, en hinir þrír hafa skrifað nöfn sín í sögu BNA og heimssöguna. Í allri þessari upptalningu á þessu merka fólki,gleymi ég að telja allt það fólk sem er á bakvið þessa merku leiðtoga, reyndar ef ég ætlaði að skrifa um alla þá sem stóðu hvað næst þessum leiðtogum, væri ég kominn með góða ritgerð. En bak við hvern leiðtoga er ávallt gott fólk, fólk sem trúir á leiðtogann og hugsjónir sínar, þetta fólk er fólkið bak við tjöldin.

Í hreinskilni, get ég sagt að það kemur ekki sá dagur, sem ég hugsa ekki hversu stórkostlegt það væri að fá að vera í sömum sporum og þetta fólk. Að fá að tala kannski yfir mörg þúsund manns, og eftir ræðu lokinni, þá hylla þig allir. Ansi magnað, er það ekki? Og ég hugsa oft um hvernig það sé að vera í fjölmiðlum, og fá hrós fyrir það sem vel er gert, og reyndar skammir fyrir það sem miður fer. Einnig að fá að taka mikilvægar ákvarðanir á ögurstundu. Þetta hugsa ég mjög oft, en skyndilega fer ég að hugsa að það eru margir aðrir sem hugsa nákvæmlega það sama og ég, hafa sömu drauma og ég sjálfur. Þá fer ég allt í einu að hugsa um það fólk sem stendur bakvið þessa leiðtoga. Það fólk sem fær aldrei hrós í fjölmiðlum, og oftar en ekki vita fáir af þessu fólki. Ég er því að velta fyrir mér hvort það sé ekki jafn mikilvægt að vera einn af þeim sem vinna bak við tjöldin? Fá kannski að vera ráðgjafi, eða vera sá sem sér um hugmyndafræði flokksins.

Eftir að ég byrjaði að starfa í Ungum jafnaðarmönnum og síðan Samfylkingunni, þá kynntist ég ungum stjórnmálamanni, sem mun eflaust ná lengra en ég, og er þegar búinn að ná langt á stuttum ferli. Í dag dettur mér aldrei í hug, að fara á móti þessum stjórnmálamanni í prófkjöri eða öðru slíku, og vil frekar vinna fyrir þennan stjórnmálamann í framtíðinni. Og ef heppnin yrði með mér þá gæti verið að ég gæti séð einhverjar af hugsjónum mínum í framkvæmd, í gegnum þennan stjórnmálamann. Það er eflaust sama tilfinning og vera sjálfur í eldlínunni, gæti ég trúað. Fyrir mér skiptir það kannski meira máli, ef hugsjónir manns lifa lengur en maður sjálfur, þó svo að enginn myndi vita að þetta væri hugsjónin mín.

Þessu eru sumir stjórnmálamenn fljótir að gleyma í dag, allir vilja verða í eldlínunni og gleyma því oft að það þurfa einhverjir að vinna bak við tjöldin. Í prófkjörum sl. haust, fengu ekki allir þau sæti sem þeir vildu, einhverjir fóru þá í fýlu, yfirgáfu flokkinn sinn , fóru í annann eða hættu alveg, þó svo að flokkurinn væri með sömu hugsjónina og hann sjálfur. Ég veit vel hvað það er að vera í íþróttum, og komast stundum ekki í byrjunarliðið, þá mátti maður ekki hætta, heldur að vera tilbúinn að koma inn á og berjast, þegar liðið þurfti þess. Þetta þurfa stjórnmálamenn að hugsa um, það geta ekki allir verið í framvarðasveitinni, en það er nauðsynlegt að einhverjir vinni bak við tjöldin, því við viljum alltaf vera í sigurliðinu, hvort sem við erum í framvarðasveitinni, eða ekki. Rétt eins og í íþróttum, vinnur einstaklingsframtakið aðeins leiki, en liðsheildin vinnur titla.

Sölmundur Karl Pálsson


Fundur um Fagra Ísland

Í gær héldum við Ungir jafnaðarmenn á Akureyri fund í nýja bíó um umhverfismál og stefnu Samfylkingarinnar í þeim málum, og í lok fundarins buðum við fundargestum upp á bíó, en fundargestir fengu að horfa á an inconvenient truth eftir Al Gore. Fundurinn heppnaðist nokkuð vel, en þó hefði verið skemmtilegra að fá fleiri á fundinn, en veðrið var allavega ekki að hjálpa okkur mikið.

P3180007Fundurinn byrjaði á framsögu Guðmundar Steingrímssonar, en hann fjallaði um umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, þ.e.a.s. bæklingin okkar Fagra Ísland, en svo virðist sem fleiri ætli sér að taka sér þann fína bækling til fyrirmyndar. En Guðmundur gerði umhverfisáætlun Samfylkingarinnar góð skil, enda góð stefnuskrá þar á ferð. Vil ég hér með þakka honum fyrir að gefa sér tíma til að skreppa norður og halda þennan fyrirlestur.

Á eftir Guðmundi kom Lára Stefánsdóttir, sem skipar þriðja sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðaustur kjördæmi, en hún fjallaði um umhverfismál á Akureyri og Bíódísel. En meðal efnis sem hún fjallaði um var Glerárdal, hreinsun strandlengjunar, göngu og hjólreiðastíga, Hrísey og svo loks það sem allir eru að tala um , frítt í strætó. Síðan kom hún inn á Bíódisel, en fyrir þá sem ekki vita hvað Bíódísel er, þá er það eldsneyti sem er búið til úr lífrænum efnum, þ.e. korni frá Kanada. Upphaflega átti Jón Ingi að halda þennan fyrirlestur, en hann var víst tvíbókaður þessa helgi, þá kom Lára í staðinn, og stóð sig mjög vel.

Þriðja og síðasta framsagan var um bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu. Upphaflega átti Þröstur Eysteinsson að flytja þennan fyrirlestur, en sökum veðurs komst hann ekki. En í staðinn kom Brynhildur Bjarnadóttir, og stóð hún sig mjög vel, og vil ég þakka henni hér með fyrir fræðandi fyrirlestur.  Brynhildur kom inn á hversu stórt hlutverk skógrækt og landgræðsla spilar í baráttunni við hnattræna hlýnun. Og þessi fyrirlestur ætti að fara á flesta ef ekki alla staði á Íslandi, enda mikilvægt innlegg í umhverfismálum.

Fundarstjóri fundarins var síðan Margrét Kristín Helgadóttir, og stóð hún sig mjög vel, enda ekki við neinuMaggaStína öðru að búast, enda er hún að verða mjög vön því að vera fundarstjóri. Þess má til gaman geta að hún er skólastjóri Stjórnmálaskólans sem haldinn verður um næstu helgi í Lárusarhúsi, en ég mun auglýsa hann seinna.

Síðan um klukkan 14:00 var sýnd myndin an inconvenient truth, og ég mæli með því að allir horfi á þessa mynd, virkilega góð og vel unnin mynd. Og pælið í því hvernig heimsmyndin væri í dag, ef hann hefði orðið bandaríkjaforseti. Skil ekki ennþá hvernig George Bush gat orðið forseti, ein af stærstu mistökum í sögu BNA.

Sölmundur Karl Pálsson


Ungir Jafnaðarmenn bjóða í bíó á Sunnudaginn

Við í Ungum jafnaðamönnum á Akureyri ætlum að bjóða Akureyringum og nærsveitarmönnum í bíó á morgun 18. mars klukkan 13:00 í Nýja-bíó. Allir velkomnir, ungir sem aldnir, náttúrusinnar sem og stjóriðjusinnar.

Klukkan 13:00 á sunnudaginn ætlum við Ungir Jafnaðarmenn að halda fund í Nýja-bíó um umhverfisstefnu 0606-inconvenient-truthSamfylkingarinnar. Við erum búin að fá gott fólk til að halda framsögur. Guðmundur Steingrímsson tók sér tíma og allar að koma norður á morgun og fjalla um Fagra Ísland, sem er stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Á eftir honum kemur síðan Lára Stefánsdóttir og ætlar að fræða fundarmenn um bíódisel og frítt í Strætó. Enda voru það Samfylkingarmenn sem knúðu því fram að frítt yrði í strætó hér á Akureyri, sem er að sjálfssögðu gott mál, og fleiri bæjarfélög ættu að taka okkur Akureyringa til fyrirmyndar. En eftir Láru mun svo Þröstur Eysteinsson skógfræðingur frá Egilsstöðum koma og fræða fundarmenn um kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu. En að loknum framsögum, um klukkan 14:00, verður fundarmönnum boðið að sjá Óskarsverðlaunamyndina an inconcenient truth eftir Al Gore, fv. varaforseta Bandaríkjanna. Mynd sem allir ættu að sjá. Og síðan má auðvitað ekki gleyma fundarstjóranum. En fundarstjóri þessa fundar er einn af efnilegustu stjórnmálamönnum okkar, að mínu mati, en það er hún Margrét Kristín Helgadóttir, en jafnframt því að vera varaformaður UJA, skipar hún 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðaustur kjördæmi.

Ég hvet því alla Akureyringa sem og nærsveitarmenn að koma og kynna sér stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum, hvort sem menn eru umhverfissinnar eða ekki. En allir að mæta í Nýja-Bíó klukkan 13:00 á Sunnudaginn.

kv,

Sölmundur Karl Pálsson


Aukin vernd heimildarmanna

shutup_nytEignarhald á fjölmiðlum hefur verið eldfimt mál í nokkur ár, og hver man ekki eftir fjölmiðlafárinu 2004? En málið er að það er nauðsynlegt að setja takmörk á eignarhald á fjölmiðlum að mínu mati. Fjölmiðlar skipa stóran sess í nútíma þjóðfélagi, og ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir fjórða valdið. Og það gríðarmikla vald sem þeir hafa á skoðunamyndun almennings er mikið, og eflaust er einhverjir peningamenn tilbúnir að eyða peningum sínum til þess að komast yfir þetta gríðarmikla vald. En hins vegar hefur lítið farið fyrir annari umræðu, sem er ekki síður mikilvæg, og jafnvel mikilvægari í nútíma þjóðfélagi okkar. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki sýnt þessu máli nægan áhuga og hefur Samfylkingin verið eini flokkurinn sem hefur tekið þetta mál upp á sína arma. En þetta mál er vernd heimildarmanna, sem á að tryggja fjölmiðlum möguleika til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings.Fjölmiðlar eiga að veita löggjafa- og framkvæmdarvaldinu aðhald, og eiga ávallt að veita almenningi upplýsingar um hvað valdhafarnir eru að aðhafast. En fjölmiðlar einir geta ekki fengið þessar upplýsingar, og því þurfa þeir ávallt heimildarmenn sem oftar en ekki innanbúðar í tiltekinni stofnun. En því miður á Íslandi er þetta trúnaðarsamband milli blaðamanns og heimildarmanns ekki virt að fullu, og vernd heimldarmanns ekki tryggt. Þegar svo er geta upplýsingar sem eiga að rata til almennings, svo sem spilling innan stjórnkerfis, verða ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir vinnuveitenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. En því miður hefur hvorki Framsókn né Sjálfsstæðisflokkurinn haft áhuga á frjálsri fjölmiðlun né á lýðræði, því heimildarmenn geta verið mikilvægir í lýðræðissamfélagi. En eini flokkurinn sem hefur haft einhvern áhuga á þessu merka máli er Samfylkingin sem hefur lagt frumvarp um vernd heimildarmanna. Fyrst lagði Bryndís Hlöðversdóttir þetta frumvarp fram ásamt fleirum þingmönnum, og nú síðast lögðu Ágúst Ólafur og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar þetta sama frumvarp fram með ýmsum breytingum. En hvað felur þetta frumvarp í sér?

 Í fyrstu grein frumvarpsins segir að starfsmönnum fjölmiðla verði ekki skylt að nafngreina heimildamenn sína fyrir dómi ef heimildarmaður hefur krafist nafnleyndar. Hins vegar myndi þetta ekki eiga við ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsis. Einnig mættu starfsmenn fjölmiðla heimilt að neita að leggja fram sönnunargögn fyrir dómi sem hafa að geyma upplýsingar um hver heimildarmaðurinn sé.Í þriðju grein frumvarpsins, bætis við ný málsgrein við 18 gr. laga nr 70/1996, en í frumvarpinu segir að opinber starfsmaður megi víkja frá þagnarskyldu, ef málefnið varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings. Í fjórðu grein frumvarpsins, bætist einnig ný málsgrein við 32. grein um sveitarstjórnarlögum. En í núgildandi lögum er sveitarstjórnarmönnum skylt að gæta þagmælsku, um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. En þessi nýja málsgrein sem myndi bætast við er sú sama og myndi bætast við 18 gr. laga nr 70/1996. En kannski mesta breytingin yrði á 136 gr. hegningarlaga. En í dag má opinber starfsmaður ekki segja frá vitneskju sinni í starfi, ef hann brýtur þá þagnarskyldu, á hann hættu á eins árs fangelsi, og ef hann hefur brotið þagnarskyldu til að afla sér eða öðrum óréttmætts ávinnings, eða noti slíka vitnekju í því skyni, má beita fangelsi allt að þremur árum. En ef þetta frumvarp Samfylkingarinnar fengi brautargengi, myndi ein málsgrein bættast við þessa grein, en hún er þannig að ef upplýsingar hafi verið gefnar í þágu almannaheilla og ríkir hagsmunir hafi verið í húfi skal það refsilaust. 

Eins og fyrr segir, verða heimildarmenn að njóta verndar, því það er samfélaginu okkar til hins betra, því í dag þarf gríðarlegt hugrekki og þor fyrir heimildarmenn að láta fjölmiðlum í té upplýsingar sem geta átt erindi í þágu almennings. Hver man ekki eftir Landsímamálinu árið 2002, þar þurfti Halldór Ernir að sýna gífurlegt hugrekki að láta DV í té upplýsingar sem leiddu til þess að upplýst var um trúnaðarbrot gagnvart stjórn Landssímans.  Einnig sýndi Byko maðurinn sem kom upp um Árna Johnsen gífurlegt þor að láta fjölmiðla fá upplýsingar. En líklega er frægasta dæmið um slíkar uppljóstranir, sem fram kom í Bandaríkjunum, þegar Dr. Jeffrey Wigand lét Lowell Bergman framleiðanda fréttaþáttanna 60 mínútna, í té upplýsingar um meinta ólöglegra viðskiptahætti í tóbaksiðnaðnum. 

Ennþá í dag er uppljóstrari notað oft í neikvæðum tóni, og oftar en ekki er uppljóstrari notað í sömu andrá og svikari. Margir vilja halda því fram að uppljóstrari sé að rjúfa skuldbindingu um hollustu sem byggir á trausti eða trúanaði við fyrirtækið eða stofnuninna sem hann er að vinna fyrir. En ég tel uppljóstrara afar mikilvæga, og stundum og þá sérstaklega í lýðræðisþjóðfélagi, því þeir koma jú oft málum sem varða almannaheill upp á yfirborðið, og oftar en ekki græðir samfélagið á því að málið hafi komið upp á yfirborðið, en uppljóstrarinn lendir oftar en ekki illa úr því.Á Íslandi í dag er mjög erfitt að láta upplýsingar til fjölmiðla, þar sem heimildarmenn fá litla sem enga vernd, og því lítill hvati til að upplýsa um meint brot stofnanna sem varða almannaheill. Það eru aðeins fáir sem búa yfir þeim styrk, að þora að láta fjölmiðla fá upplýsingar sem varða almannaheill, og þessir menn sem þora verðum við að hlúa að, því það er mikil dyggð að taka oft samfélagið fram yfir sjálfan sig.En þá er spurningin, verðum við ekki í lýðræðissamfélagi að passa upp á að mikilvægar upplýsingar komi upp á yfirborðið, og hvað þá ef valdhafar eru að brjóta á almenningi án vitundar almennings? Og þá er eina leiðin að auka vernd heimildarmanna, því það er nógu erfitt fyrir að fá þá til að láta fjölmiðla fá upplýsingar. Því hvet ég næstu ríkisstjórn að klára þetta mál sem fyrst, enda er þetta mjög mikilvægt í frjálsa fjölmiðlun, og ekki síður fyrir lýðræðið. Og þannig tryggja að fjölmiðlar geti fullnægt starfskyldu sína. 

Sölmundur Karl Pálsson


Er enn á lífi

Ég vil hér með biðjast velvirðingar á leti minni við að blogga, það bara hefur verið svo mikið að gera hjá mér síðustu daga að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að blogga. Það hefur verið mikið að gera upp í Háskóla, bæði próf og verkefni og síðan er mikið um að vera hjá okkur í Ungum Jafnaðarmönnum á Akureyri. Næstu dagar og vikur verður mikið um að vera hjá okkur, svo ég bið lesendur um að vera vel vakandi fyrir atburðum sem við munum halda næstu vikurnar, enda margt spennandi á ferðinni. Reyndar hef ég einnig haft einhverja ritstiflu síðustu daga, en ég vildi bara láta lesendur vita að ég væri enn á lífi, og mun koma með alvöru pistill á morgun.  


Jafnréttissinninn Sölli??

jafnréttiFyrir nokkru síðan lenti ég í skemmtilegu samtali við einn vin minn um stöðu kvenna, ég er nú kannski enginn sérfræðingur um jafnréttismál, en á síðustu vikum, hef ég reynt að koma mér inn í þessi mál með misjöfnum árangri. En eitt af því sem ég ákvað að gera til að koma mér inn í þessi mál var að lesa skýrslu eftir Bryndísi Ísfold sem fjallaði um völd, tengsl og eðli nefnda, stjórna og ráða hjá hinu opinbera og fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöll Íslands. – Þáttaka kvenna.

Margt fornvitnilegt kom í ljós í skýrslunni hennar Bryndísar, og ég á örugglega eftir að vitna meir í þessa skýrslu, en núna einblíni ég á jafnrétti milli karla og kvenna. Það er mjög skrítið að staða kvenna sé ekki betri en hún er í dag, og það furðulegasta er að kvenmenn eru að verða menntaðri en karlar, konur eru t.a.m. 60% af nemendum á háskólastigi. Samkvæmt skýrslunni hennar Bryndísar sem gerð var árið 2003 hefur þessi aukna menntun kvenna ekki komið þeim í stjórnir fyrirtækja, eða í nefndum hjá sveitarfélögum, ríki eða hlutafélögum. Það er því ótrúlegt að konur voru aðeins 5% stjórnarmanna í fyrirtækjum og aðeins 10% af varamönnum. Einnig kom fram í skýrslunni að þeir sem sátu í fleiri en einni nefnd voru aðeins 27% af þeim konur.Í skýrslunni kom fram á þeim tíma var ríkið ekki að standa sig jafnvel í jafnréttismálum eins og sveitarfélögin, og ástæðan var sú að stærstu sveitarfélögin höfðu ráðið til sín jafnréttisfulltrúa í fullt starf, á meðan t.d. ráðuneyti réðu jafnréttisfulltrúa aðeins í hálft starf.

 Þrátt fyrir að þessar tölur séu frá árinu 2003, hafa orðið litlar breytingar að ég held. Ég leit snöggt yfir t.d. bankastjórnir sem og stjórn Seðlabankans. Það kom á óvart að það er aðeins ein kona að mér sýndist í bankastjórn Kaupþings og ein sem varamaður og sömu sögu má segja um Landsbankann. Hjá Glitni er engin kona aðalmaður en tvær sem varamenn. Síðan í bankaráði Seðlabankans er aðeins ein kona sem aðalmaður en hins vegar eru þrjár konur sem varamenn. En hvað er til ráða til að ná jafnvægi á milli karla og kvenna sem og launamismuninum? Ekki getum við treyst á stjórnarflokkana sem hafa algjörlega gleymt þessum málaflokki og reyna kannski að bjarga sér, þar sem stutt er í kosningar. Eina ráðið sem ég sé til þess að breyta þessum máli til hins betra er að skipta um ríkisstjórn, og þá sérstaklega að hafa ríkisstjórn sem er með Samfylkingunna í fararbroddi. Ef einhver flokkur getur eytt þessu misrétti, þá er það Samfylkingin með Ingibjörgu Sólrúnu sem fremsta mann. Samfylkingin er jafnréttindisflokkur, það má ekki gleyma því að Ingibjörg Sólrún náði góðum árangri sem borgarstjóri við að uppræta launaleynd að hluta og jafna laun kynjanna. Samfylkingin er eini flokkurinn með kvenkyns formann, fjórir fyrstu þingflokksformenn Samfylkingarinnar voru konur, ef mig minnir rétt. Einnig má ekki gleyma því að önnur hver kona sem settist á alþingi eftir þingkosningar 2003 kom frá Samfylkingunni.

Eitt af merkisviðburðum 20. aldar var innreið konunnar á vinnumarkaðinn, og sú innreið gerði þann mikla hagvöxt sem varð á 20. öldinni að veruleika. Það er mjög furðulegt á 21. öldinni að konan sé ennþá beitt misrétti. Eins og allir vita er þetta misrétti mjög slæmt fyrir samfélag okkar, því það er jú nauðsynlegt að fá sjónarmið beggja kynja. Hins vegar megum við ekki heldur gleyma því að þegar ég er að tala um jafnrétti kynjanna, er ég einnig að hugsa um stöðu einstæðra feðra sem og fæðingarorlof feðra, ég á eftir að fjalla um þau mál betur seinna. Ég hef því miður ekki neina töfralausn á þessu mikla vanda, nema kannski að kjósa Samfylkingunna 12. maí og vona síðan að fleiri geri slíkt hið sama, enda tel ég að flestir Íslendingar séu jafnréttissinnar og eina leiðin til að auka jafnrétti hér á landi er að fella núverandi ríkisstjórn.


Höfundur

Sölmundur Karl Pálsson
Sölmundur Karl Pálsson
Nemi í samfélags- og hagþróunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þórsari, Nallari, en fyrst og fremst jafnaðarmaður.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband