Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Maðurinn á bak við tjöldin

John F. KennedySpaugstofan hefur oft gert grín af ýmsum hlutum, og ávallt eru þeir fyndnir, þó misjafnlega, en þeir munu þó aldrei toppa fyrstu ár sín, sem voru auðvitað ekkert annað en snilld, sérstaklega þegar Laddi var með þeim. Mér finnst þó einn sketch hjá þeim dálítið sérstakur, en það er sketchin ,,maðurinn á bak við tjöldin”, þeir sem horfa á spaugstofuna vita hvað ég er að tala um. En núna, þar sem kosningar eru að hefjast þá hef ég verið að hugsa um akkúrat þetta síðustu daga. Í öllu flokkastarfi er viss hópur sem þarf að skipa framvarðarsveit en hinir verða að vera bakvið tjöldin og styðja framvarðasveitina.Í stjórnmálum er þessi bakvarðasveit, mjög mikilvæg, og ef flokkur er með góða bakvarðasveit, þá skilar það sér oftast í sigrum. Flestir þeir sem hafa áhuga eða starfa eitthvað í stjórnmálum dreyma oft um að verða í eldlínunni, og þar er ég sjálfssagt enginn undantekning. En ég er hins vegar ekki að vinna í stjórnmálum, einungis til þess að koma sjálfum mér á framfæri, eða af einhverrji valdafíkn. Ég eins og margir, höfum einhverja hugsjón, sem ég vil koma á framfæri, og mér er nokkurn vegin sama hvort ég kem með minni hugsjón sjálfur á framfæri eða einhver annar komi með hugsjónina mína á framfæri.

Við erum gædd ólíkum eiginleikum, og enginn er eins, og því hef ég á síðustu vikum verið að velta því fyrir mér, hvort hlutverkið ég myndi fá í stjórnmálum. Ég hef ekki persónutöfranna hans John F. Kennedys eða Bill Clintons. Ég er kannski ekki jafn ákveðinn og Ingibjörg Sólrún eða Davíð Oddson, en ég er heiðvirtari en Richard M. Nixon, en það verða víst aðrir að dæma um það.En ég get víst ekki borið mig saman við þetta fólk, þar sem þau eru allt öðrum eiginleikum gædd en ég. Ég byggi mína hugmyndafræði á John F. Kennedy og Bill Clinton, síðan er ég auðvitað í sama flokki og Ingibjörg. En ástæðan fyrir því að ég nefni þetta fólk til sögunnar, er sú að þau hafa skapað sögunna, reyndar mismikið, Ingibjörg og Davíð hafa skrifað nöfn sín í Íslandssöguna, en hinir þrír hafa skrifað nöfn sín í sögu BNA og heimssöguna. Í allri þessari upptalningu á þessu merka fólki,gleymi ég að telja allt það fólk sem er á bakvið þessa merku leiðtoga, reyndar ef ég ætlaði að skrifa um alla þá sem stóðu hvað næst þessum leiðtogum, væri ég kominn með góða ritgerð. En bak við hvern leiðtoga er ávallt gott fólk, fólk sem trúir á leiðtogann og hugsjónir sínar, þetta fólk er fólkið bak við tjöldin.

Í hreinskilni, get ég sagt að það kemur ekki sá dagur, sem ég hugsa ekki hversu stórkostlegt það væri að fá að vera í sömum sporum og þetta fólk. Að fá að tala kannski yfir mörg þúsund manns, og eftir ræðu lokinni, þá hylla þig allir. Ansi magnað, er það ekki? Og ég hugsa oft um hvernig það sé að vera í fjölmiðlum, og fá hrós fyrir það sem vel er gert, og reyndar skammir fyrir það sem miður fer. Einnig að fá að taka mikilvægar ákvarðanir á ögurstundu. Þetta hugsa ég mjög oft, en skyndilega fer ég að hugsa að það eru margir aðrir sem hugsa nákvæmlega það sama og ég, hafa sömu drauma og ég sjálfur. Þá fer ég allt í einu að hugsa um það fólk sem stendur bakvið þessa leiðtoga. Það fólk sem fær aldrei hrós í fjölmiðlum, og oftar en ekki vita fáir af þessu fólki. Ég er því að velta fyrir mér hvort það sé ekki jafn mikilvægt að vera einn af þeim sem vinna bak við tjöldin? Fá kannski að vera ráðgjafi, eða vera sá sem sér um hugmyndafræði flokksins.

Eftir að ég byrjaði að starfa í Ungum jafnaðarmönnum og síðan Samfylkingunni, þá kynntist ég ungum stjórnmálamanni, sem mun eflaust ná lengra en ég, og er þegar búinn að ná langt á stuttum ferli. Í dag dettur mér aldrei í hug, að fara á móti þessum stjórnmálamanni í prófkjöri eða öðru slíku, og vil frekar vinna fyrir þennan stjórnmálamann í framtíðinni. Og ef heppnin yrði með mér þá gæti verið að ég gæti séð einhverjar af hugsjónum mínum í framkvæmd, í gegnum þennan stjórnmálamann. Það er eflaust sama tilfinning og vera sjálfur í eldlínunni, gæti ég trúað. Fyrir mér skiptir það kannski meira máli, ef hugsjónir manns lifa lengur en maður sjálfur, þó svo að enginn myndi vita að þetta væri hugsjónin mín.

Þessu eru sumir stjórnmálamenn fljótir að gleyma í dag, allir vilja verða í eldlínunni og gleyma því oft að það þurfa einhverjir að vinna bak við tjöldin. Í prófkjörum sl. haust, fengu ekki allir þau sæti sem þeir vildu, einhverjir fóru þá í fýlu, yfirgáfu flokkinn sinn , fóru í annann eða hættu alveg, þó svo að flokkurinn væri með sömu hugsjónina og hann sjálfur. Ég veit vel hvað það er að vera í íþróttum, og komast stundum ekki í byrjunarliðið, þá mátti maður ekki hætta, heldur að vera tilbúinn að koma inn á og berjast, þegar liðið þurfti þess. Þetta þurfa stjórnmálamenn að hugsa um, það geta ekki allir verið í framvarðasveitinni, en það er nauðsynlegt að einhverjir vinni bak við tjöldin, því við viljum alltaf vera í sigurliðinu, hvort sem við erum í framvarðasveitinni, eða ekki. Rétt eins og í íþróttum, vinnur einstaklingsframtakið aðeins leiki, en liðsheildin vinnur titla.

Sölmundur Karl Pálsson


Aukin vernd heimildarmanna

shutup_nytEignarhald á fjölmiðlum hefur verið eldfimt mál í nokkur ár, og hver man ekki eftir fjölmiðlafárinu 2004? En málið er að það er nauðsynlegt að setja takmörk á eignarhald á fjölmiðlum að mínu mati. Fjölmiðlar skipa stóran sess í nútíma þjóðfélagi, og ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir fjórða valdið. Og það gríðarmikla vald sem þeir hafa á skoðunamyndun almennings er mikið, og eflaust er einhverjir peningamenn tilbúnir að eyða peningum sínum til þess að komast yfir þetta gríðarmikla vald. En hins vegar hefur lítið farið fyrir annari umræðu, sem er ekki síður mikilvæg, og jafnvel mikilvægari í nútíma þjóðfélagi okkar. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki sýnt þessu máli nægan áhuga og hefur Samfylkingin verið eini flokkurinn sem hefur tekið þetta mál upp á sína arma. En þetta mál er vernd heimildarmanna, sem á að tryggja fjölmiðlum möguleika til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings.Fjölmiðlar eiga að veita löggjafa- og framkvæmdarvaldinu aðhald, og eiga ávallt að veita almenningi upplýsingar um hvað valdhafarnir eru að aðhafast. En fjölmiðlar einir geta ekki fengið þessar upplýsingar, og því þurfa þeir ávallt heimildarmenn sem oftar en ekki innanbúðar í tiltekinni stofnun. En því miður á Íslandi er þetta trúnaðarsamband milli blaðamanns og heimildarmanns ekki virt að fullu, og vernd heimldarmanns ekki tryggt. Þegar svo er geta upplýsingar sem eiga að rata til almennings, svo sem spilling innan stjórnkerfis, verða ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir vinnuveitenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. En því miður hefur hvorki Framsókn né Sjálfsstæðisflokkurinn haft áhuga á frjálsri fjölmiðlun né á lýðræði, því heimildarmenn geta verið mikilvægir í lýðræðissamfélagi. En eini flokkurinn sem hefur haft einhvern áhuga á þessu merka máli er Samfylkingin sem hefur lagt frumvarp um vernd heimildarmanna. Fyrst lagði Bryndís Hlöðversdóttir þetta frumvarp fram ásamt fleirum þingmönnum, og nú síðast lögðu Ágúst Ólafur og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar þetta sama frumvarp fram með ýmsum breytingum. En hvað felur þetta frumvarp í sér?

 Í fyrstu grein frumvarpsins segir að starfsmönnum fjölmiðla verði ekki skylt að nafngreina heimildamenn sína fyrir dómi ef heimildarmaður hefur krafist nafnleyndar. Hins vegar myndi þetta ekki eiga við ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsis. Einnig mættu starfsmenn fjölmiðla heimilt að neita að leggja fram sönnunargögn fyrir dómi sem hafa að geyma upplýsingar um hver heimildarmaðurinn sé.Í þriðju grein frumvarpsins, bætis við ný málsgrein við 18 gr. laga nr 70/1996, en í frumvarpinu segir að opinber starfsmaður megi víkja frá þagnarskyldu, ef málefnið varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings. Í fjórðu grein frumvarpsins, bætist einnig ný málsgrein við 32. grein um sveitarstjórnarlögum. En í núgildandi lögum er sveitarstjórnarmönnum skylt að gæta þagmælsku, um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. En þessi nýja málsgrein sem myndi bætast við er sú sama og myndi bætast við 18 gr. laga nr 70/1996. En kannski mesta breytingin yrði á 136 gr. hegningarlaga. En í dag má opinber starfsmaður ekki segja frá vitneskju sinni í starfi, ef hann brýtur þá þagnarskyldu, á hann hættu á eins árs fangelsi, og ef hann hefur brotið þagnarskyldu til að afla sér eða öðrum óréttmætts ávinnings, eða noti slíka vitnekju í því skyni, má beita fangelsi allt að þremur árum. En ef þetta frumvarp Samfylkingarinnar fengi brautargengi, myndi ein málsgrein bættast við þessa grein, en hún er þannig að ef upplýsingar hafi verið gefnar í þágu almannaheilla og ríkir hagsmunir hafi verið í húfi skal það refsilaust. 

Eins og fyrr segir, verða heimildarmenn að njóta verndar, því það er samfélaginu okkar til hins betra, því í dag þarf gríðarlegt hugrekki og þor fyrir heimildarmenn að láta fjölmiðlum í té upplýsingar sem geta átt erindi í þágu almennings. Hver man ekki eftir Landsímamálinu árið 2002, þar þurfti Halldór Ernir að sýna gífurlegt hugrekki að láta DV í té upplýsingar sem leiddu til þess að upplýst var um trúnaðarbrot gagnvart stjórn Landssímans.  Einnig sýndi Byko maðurinn sem kom upp um Árna Johnsen gífurlegt þor að láta fjölmiðla fá upplýsingar. En líklega er frægasta dæmið um slíkar uppljóstranir, sem fram kom í Bandaríkjunum, þegar Dr. Jeffrey Wigand lét Lowell Bergman framleiðanda fréttaþáttanna 60 mínútna, í té upplýsingar um meinta ólöglegra viðskiptahætti í tóbaksiðnaðnum. 

Ennþá í dag er uppljóstrari notað oft í neikvæðum tóni, og oftar en ekki er uppljóstrari notað í sömu andrá og svikari. Margir vilja halda því fram að uppljóstrari sé að rjúfa skuldbindingu um hollustu sem byggir á trausti eða trúanaði við fyrirtækið eða stofnuninna sem hann er að vinna fyrir. En ég tel uppljóstrara afar mikilvæga, og stundum og þá sérstaklega í lýðræðisþjóðfélagi, því þeir koma jú oft málum sem varða almannaheill upp á yfirborðið, og oftar en ekki græðir samfélagið á því að málið hafi komið upp á yfirborðið, en uppljóstrarinn lendir oftar en ekki illa úr því.Á Íslandi í dag er mjög erfitt að láta upplýsingar til fjölmiðla, þar sem heimildarmenn fá litla sem enga vernd, og því lítill hvati til að upplýsa um meint brot stofnanna sem varða almannaheill. Það eru aðeins fáir sem búa yfir þeim styrk, að þora að láta fjölmiðla fá upplýsingar sem varða almannaheill, og þessir menn sem þora verðum við að hlúa að, því það er mikil dyggð að taka oft samfélagið fram yfir sjálfan sig.En þá er spurningin, verðum við ekki í lýðræðissamfélagi að passa upp á að mikilvægar upplýsingar komi upp á yfirborðið, og hvað þá ef valdhafar eru að brjóta á almenningi án vitundar almennings? Og þá er eina leiðin að auka vernd heimildarmanna, því það er nógu erfitt fyrir að fá þá til að láta fjölmiðla fá upplýsingar. Því hvet ég næstu ríkisstjórn að klára þetta mál sem fyrst, enda er þetta mjög mikilvægt í frjálsa fjölmiðlun, og ekki síður fyrir lýðræðið. Og þannig tryggja að fjölmiðlar geti fullnægt starfskyldu sína. 

Sölmundur Karl Pálsson


Millidómstig- rétta lausnin?

FBD51A84-B60A-4992-97930B25EAF1C14BÞað eru nokkrar grunnstofnanir í okkar samfélagi, og ein af þeim helstu er dómskerfið okkar. Í daglegu lífi, erum við í sporum dómara, almenningur dæmir oft fólk út frá útliti eða jafnvel dæmir það út af aðgerðum þeirra. Fólkið sem fá þennan almenningsdóm á sig, getur ekki svarað fyrir sig, og oftar en ekki losnar það aldrei við þennann stimpil sem það fær á sig. Það sem vegur oft hvað þyngst í nútíma þjóðfélagi er sanngjörn málsmeðferð, að allir fái sömu meðferð í dómskerfinu. Við Íslendingar getum oft verið stoltir af dómstólakerfi okkar, þó svo að margir séu ekki alltaf sammála dómum sem falla í hæstarétti. En það má alltaf gera betur, og dómskerfið okkar er ekki gallalaust.

Í dag liggur frumvarp fyrir Alþingi, til breytingar á dómstólalögum, er þar er gert ráð fyrir að fjölga héraðsdómurum úr 38 í 40. Í frumvarpinu kemur fram ný regla sem gerir það að verkum að þrír héraðsdómarar skuli skipa héraðsdóm ef ákærandi neitar sök, og víst er að munnleg sönnurarfærsla muni ráða niðurstöðu dómsins. En málið er í dag, að reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu er ekki virt hér á landi hjá Hæstarétti. Hæstiréttur kallar mjög sjaldan til munnlegrar skýrslutöku, en það hefur þó gerst. En vegna þess að álagið á hæstarréttardómurum myndi aukast mikið við að taka munnlega skýrslutöku, grípa þeir oft til þess ráðs að ómerkja dóm héraðsdóms og vísa málinu aftur heim í hérað. En reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu felur í sér að æðri dómstóll, geti ekki sakfellt mann sem sýknaður hefur verið í undirrétti á grundvelli framburðar hans sjálfs eða vitna, nema dómendur æðri dómstóls hafi sjálfir hlýtt á framburðinn. En samkvæmt Mannréttindadómstóli Evrópu jaðrar þetta við brot á mannréttindasáttmálanum að virða ekki regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. En árið 1998 snéri Hæstiréttur sýknudómi Héraðsdóms og dæmdi einstakling til fanelsisvistar til tveggja ára og þriggja mánaða. En samkvæmt mannréttindadómstóli vilja þeir meina að ákærandi hefði mátt búast við að fara í munnlega skýrslutöku vegna breytts sönnunarmats. En hver er þá lausnin? Er dómsmálaráðherra aðeins að setja plástur á vandamál með því að fjölga héraðsdómurum?

Dómstólaráð og dómsstjóri héraðsdóms Reykjavíkur telja að besta lausnin við að reglan um milliiðalausa sönnunarfærslu við æðri dómstól yrði uppfyllt sé að stofna millidómsstig. Og rökin þeirra fyrir að stofna millidómsstig, er sú að álag héraðsdómara muni aukast við hið nýja frumvarp dómsmálaráðherra, og fjölgun héraðsdómara muni líka seinka meðferð mála, því það er nógu erfitt að finna tíma til aðalmeðferðar sem henti dómara, sækjanda og verjanda, og hvað þá þegar dómararnir verða þrír. Þar að auki telja þeir að ef það eigi að fjölga dómurum, væri jafn gott að stofna nýtt dómstig, fækka þá jafnvel hæstarréttardómurum um einn vegna minna álags með tilkomu nýs dómstigs, og einnig væri hægt að fækka héraðsdómurum um tvo eða svo. En millidómsstig myndi þá einungis sinna sakamálum, en ekki einkamálum, og dómar þessa millistigs væru endanlegir. Þá geta aðilar áfrýjað dómi héraðsdóms til þessa millistigs, og þar myndi fara fram skýrslataka af aðilum að málinu og einnig að rannsóknarúrskurðir kæmu til kasta millidómstigsins. Þannig yrði reglan um milliliðalausa málsmeðferð fullnægt við stofnun millidómstigs. En af hverju hlustar ekki Dómsmálaráðuneytið t.d. á umsagnir dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur sem og dómsstólaráð um frumvarpið?

Jú, svarið er einfalt, einhverjir telja að stofnun millidómsstigs sé of kostnaðarsamt sem og það geti tafið málsmeðferð enn frekar og myndi gera dómskerfið enn flóknara. En þá spyr ég á móti, er ekki dýrt að fjölga dómurum í héraðsdómi, og hvað þá þegar þrír þurfi að vera þegar ákærandi neitar sök, þar að auki mun álag á héraðsdómara aukast enn frekar, og þar af leiðandi frekari tafir á málsmeðferð. Er það ekki kostnaðarsamt?

Ég tel eftir að hafa lesið góða grein eftir Ragnhildi Sverrisdóttur um þetta mál í morgunblaðinu fyrir viku, tel ég að besti kosturinn sé frekar að stofna nýtt millidómsstig frekar en tillaga dómsmálaráðherra í frumvarpinu um að fjölga héraðsdómurum þegar ákærandi neitar sök. Þjóðfélag okkar verður að geta treyst dómskerfinu, og það er grunnur hvers þjóðfélags að þjóðfélagsþegnar eigi rétt á sanngjarnri málsmeðferð, og ef lausnin er að stofna millidómstig þá eigum við að stofna nýtt dómsstig. Eins og ég skrifaði fyrr í vetur, þá þurfum við að bæta lög um dómstóla. Gera dómstóla enn óháðari ríkisvaldinu, t.d. með því að láta Alþingi kjósa um hæstarréttardómara í staðinn fyrir dómsmálaráðherra ráði hæstarréttardómar, þar sem ¾ þingmanna þyrftu að samþykkja ráðningu hæstarrétardómara. Einnig tel ég að við þyrftum að stofna nýtt dómstig til þess að gera málsmeðferð ennþá réttlátari. Eitt megum við þó ekki gleyma, að eitt af grunnstoðum okkar samfélags er sanngjörn málsmeðferð og það þurfum við að standa vörð um. Því hvet ég dómsmálaráðherra að skoða þann möguleika að stofna svokallað millidómsstig eða þá hreinlega hvet ég þá ríkisstjórn sem mun taka við eftir kosningarnar 12. maí að skoða þann möguleika.


« Fyrri síða

Höfundur

Sölmundur Karl Pálsson
Sölmundur Karl Pálsson
Nemi í samfélags- og hagþróunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þórsari, Nallari, en fyrst og fremst jafnaðarmaður.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband