Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ungir Jafnaðarmenn bjóða í bíó á Sunnudaginn

Við í Ungum jafnaðamönnum á Akureyri ætlum að bjóða Akureyringum og nærsveitarmönnum í bíó á morgun 18. mars klukkan 13:00 í Nýja-bíó. Allir velkomnir, ungir sem aldnir, náttúrusinnar sem og stjóriðjusinnar.

Klukkan 13:00 á sunnudaginn ætlum við Ungir Jafnaðarmenn að halda fund í Nýja-bíó um umhverfisstefnu 0606-inconvenient-truthSamfylkingarinnar. Við erum búin að fá gott fólk til að halda framsögur. Guðmundur Steingrímsson tók sér tíma og allar að koma norður á morgun og fjalla um Fagra Ísland, sem er stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Á eftir honum kemur síðan Lára Stefánsdóttir og ætlar að fræða fundarmenn um bíódisel og frítt í Strætó. Enda voru það Samfylkingarmenn sem knúðu því fram að frítt yrði í strætó hér á Akureyri, sem er að sjálfssögðu gott mál, og fleiri bæjarfélög ættu að taka okkur Akureyringa til fyrirmyndar. En eftir Láru mun svo Þröstur Eysteinsson skógfræðingur frá Egilsstöðum koma og fræða fundarmenn um kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu. En að loknum framsögum, um klukkan 14:00, verður fundarmönnum boðið að sjá Óskarsverðlaunamyndina an inconcenient truth eftir Al Gore, fv. varaforseta Bandaríkjanna. Mynd sem allir ættu að sjá. Og síðan má auðvitað ekki gleyma fundarstjóranum. En fundarstjóri þessa fundar er einn af efnilegustu stjórnmálamönnum okkar, að mínu mati, en það er hún Margrét Kristín Helgadóttir, en jafnframt því að vera varaformaður UJA, skipar hún 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðaustur kjördæmi.

Ég hvet því alla Akureyringa sem og nærsveitarmenn að koma og kynna sér stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum, hvort sem menn eru umhverfissinnar eða ekki. En allir að mæta í Nýja-Bíó klukkan 13:00 á Sunnudaginn.

kv,

Sölmundur Karl Pálsson


Aukin vernd heimildarmanna

shutup_nytEignarhald á fjölmiðlum hefur verið eldfimt mál í nokkur ár, og hver man ekki eftir fjölmiðlafárinu 2004? En málið er að það er nauðsynlegt að setja takmörk á eignarhald á fjölmiðlum að mínu mati. Fjölmiðlar skipa stóran sess í nútíma þjóðfélagi, og ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir fjórða valdið. Og það gríðarmikla vald sem þeir hafa á skoðunamyndun almennings er mikið, og eflaust er einhverjir peningamenn tilbúnir að eyða peningum sínum til þess að komast yfir þetta gríðarmikla vald. En hins vegar hefur lítið farið fyrir annari umræðu, sem er ekki síður mikilvæg, og jafnvel mikilvægari í nútíma þjóðfélagi okkar. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki sýnt þessu máli nægan áhuga og hefur Samfylkingin verið eini flokkurinn sem hefur tekið þetta mál upp á sína arma. En þetta mál er vernd heimildarmanna, sem á að tryggja fjölmiðlum möguleika til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings.Fjölmiðlar eiga að veita löggjafa- og framkvæmdarvaldinu aðhald, og eiga ávallt að veita almenningi upplýsingar um hvað valdhafarnir eru að aðhafast. En fjölmiðlar einir geta ekki fengið þessar upplýsingar, og því þurfa þeir ávallt heimildarmenn sem oftar en ekki innanbúðar í tiltekinni stofnun. En því miður á Íslandi er þetta trúnaðarsamband milli blaðamanns og heimildarmanns ekki virt að fullu, og vernd heimldarmanns ekki tryggt. Þegar svo er geta upplýsingar sem eiga að rata til almennings, svo sem spilling innan stjórnkerfis, verða ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir vinnuveitenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. En því miður hefur hvorki Framsókn né Sjálfsstæðisflokkurinn haft áhuga á frjálsri fjölmiðlun né á lýðræði, því heimildarmenn geta verið mikilvægir í lýðræðissamfélagi. En eini flokkurinn sem hefur haft einhvern áhuga á þessu merka máli er Samfylkingin sem hefur lagt frumvarp um vernd heimildarmanna. Fyrst lagði Bryndís Hlöðversdóttir þetta frumvarp fram ásamt fleirum þingmönnum, og nú síðast lögðu Ágúst Ólafur og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar þetta sama frumvarp fram með ýmsum breytingum. En hvað felur þetta frumvarp í sér?

 Í fyrstu grein frumvarpsins segir að starfsmönnum fjölmiðla verði ekki skylt að nafngreina heimildamenn sína fyrir dómi ef heimildarmaður hefur krafist nafnleyndar. Hins vegar myndi þetta ekki eiga við ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsis. Einnig mættu starfsmenn fjölmiðla heimilt að neita að leggja fram sönnunargögn fyrir dómi sem hafa að geyma upplýsingar um hver heimildarmaðurinn sé.Í þriðju grein frumvarpsins, bætis við ný málsgrein við 18 gr. laga nr 70/1996, en í frumvarpinu segir að opinber starfsmaður megi víkja frá þagnarskyldu, ef málefnið varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings. Í fjórðu grein frumvarpsins, bætist einnig ný málsgrein við 32. grein um sveitarstjórnarlögum. En í núgildandi lögum er sveitarstjórnarmönnum skylt að gæta þagmælsku, um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. En þessi nýja málsgrein sem myndi bætast við er sú sama og myndi bætast við 18 gr. laga nr 70/1996. En kannski mesta breytingin yrði á 136 gr. hegningarlaga. En í dag má opinber starfsmaður ekki segja frá vitneskju sinni í starfi, ef hann brýtur þá þagnarskyldu, á hann hættu á eins árs fangelsi, og ef hann hefur brotið þagnarskyldu til að afla sér eða öðrum óréttmætts ávinnings, eða noti slíka vitnekju í því skyni, má beita fangelsi allt að þremur árum. En ef þetta frumvarp Samfylkingarinnar fengi brautargengi, myndi ein málsgrein bættast við þessa grein, en hún er þannig að ef upplýsingar hafi verið gefnar í þágu almannaheilla og ríkir hagsmunir hafi verið í húfi skal það refsilaust. 

Eins og fyrr segir, verða heimildarmenn að njóta verndar, því það er samfélaginu okkar til hins betra, því í dag þarf gríðarlegt hugrekki og þor fyrir heimildarmenn að láta fjölmiðlum í té upplýsingar sem geta átt erindi í þágu almennings. Hver man ekki eftir Landsímamálinu árið 2002, þar þurfti Halldór Ernir að sýna gífurlegt hugrekki að láta DV í té upplýsingar sem leiddu til þess að upplýst var um trúnaðarbrot gagnvart stjórn Landssímans.  Einnig sýndi Byko maðurinn sem kom upp um Árna Johnsen gífurlegt þor að láta fjölmiðla fá upplýsingar. En líklega er frægasta dæmið um slíkar uppljóstranir, sem fram kom í Bandaríkjunum, þegar Dr. Jeffrey Wigand lét Lowell Bergman framleiðanda fréttaþáttanna 60 mínútna, í té upplýsingar um meinta ólöglegra viðskiptahætti í tóbaksiðnaðnum. 

Ennþá í dag er uppljóstrari notað oft í neikvæðum tóni, og oftar en ekki er uppljóstrari notað í sömu andrá og svikari. Margir vilja halda því fram að uppljóstrari sé að rjúfa skuldbindingu um hollustu sem byggir á trausti eða trúanaði við fyrirtækið eða stofnuninna sem hann er að vinna fyrir. En ég tel uppljóstrara afar mikilvæga, og stundum og þá sérstaklega í lýðræðisþjóðfélagi, því þeir koma jú oft málum sem varða almannaheill upp á yfirborðið, og oftar en ekki græðir samfélagið á því að málið hafi komið upp á yfirborðið, en uppljóstrarinn lendir oftar en ekki illa úr því.Á Íslandi í dag er mjög erfitt að láta upplýsingar til fjölmiðla, þar sem heimildarmenn fá litla sem enga vernd, og því lítill hvati til að upplýsa um meint brot stofnanna sem varða almannaheill. Það eru aðeins fáir sem búa yfir þeim styrk, að þora að láta fjölmiðla fá upplýsingar sem varða almannaheill, og þessir menn sem þora verðum við að hlúa að, því það er mikil dyggð að taka oft samfélagið fram yfir sjálfan sig.En þá er spurningin, verðum við ekki í lýðræðissamfélagi að passa upp á að mikilvægar upplýsingar komi upp á yfirborðið, og hvað þá ef valdhafar eru að brjóta á almenningi án vitundar almennings? Og þá er eina leiðin að auka vernd heimildarmanna, því það er nógu erfitt fyrir að fá þá til að láta fjölmiðla fá upplýsingar. Því hvet ég næstu ríkisstjórn að klára þetta mál sem fyrst, enda er þetta mjög mikilvægt í frjálsa fjölmiðlun, og ekki síður fyrir lýðræðið. Og þannig tryggja að fjölmiðlar geti fullnægt starfskyldu sína. 

Sölmundur Karl Pálsson


Er enn á lífi

Ég vil hér með biðjast velvirðingar á leti minni við að blogga, það bara hefur verið svo mikið að gera hjá mér síðustu daga að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að blogga. Það hefur verið mikið að gera upp í Háskóla, bæði próf og verkefni og síðan er mikið um að vera hjá okkur í Ungum Jafnaðarmönnum á Akureyri. Næstu dagar og vikur verður mikið um að vera hjá okkur, svo ég bið lesendur um að vera vel vakandi fyrir atburðum sem við munum halda næstu vikurnar, enda margt spennandi á ferðinni. Reyndar hef ég einnig haft einhverja ritstiflu síðustu daga, en ég vildi bara láta lesendur vita að ég væri enn á lífi, og mun koma með alvöru pistill á morgun.  


Jafnréttissinninn Sölli??

jafnréttiFyrir nokkru síðan lenti ég í skemmtilegu samtali við einn vin minn um stöðu kvenna, ég er nú kannski enginn sérfræðingur um jafnréttismál, en á síðustu vikum, hef ég reynt að koma mér inn í þessi mál með misjöfnum árangri. En eitt af því sem ég ákvað að gera til að koma mér inn í þessi mál var að lesa skýrslu eftir Bryndísi Ísfold sem fjallaði um völd, tengsl og eðli nefnda, stjórna og ráða hjá hinu opinbera og fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöll Íslands. – Þáttaka kvenna.

Margt fornvitnilegt kom í ljós í skýrslunni hennar Bryndísar, og ég á örugglega eftir að vitna meir í þessa skýrslu, en núna einblíni ég á jafnrétti milli karla og kvenna. Það er mjög skrítið að staða kvenna sé ekki betri en hún er í dag, og það furðulegasta er að kvenmenn eru að verða menntaðri en karlar, konur eru t.a.m. 60% af nemendum á háskólastigi. Samkvæmt skýrslunni hennar Bryndísar sem gerð var árið 2003 hefur þessi aukna menntun kvenna ekki komið þeim í stjórnir fyrirtækja, eða í nefndum hjá sveitarfélögum, ríki eða hlutafélögum. Það er því ótrúlegt að konur voru aðeins 5% stjórnarmanna í fyrirtækjum og aðeins 10% af varamönnum. Einnig kom fram í skýrslunni að þeir sem sátu í fleiri en einni nefnd voru aðeins 27% af þeim konur.Í skýrslunni kom fram á þeim tíma var ríkið ekki að standa sig jafnvel í jafnréttismálum eins og sveitarfélögin, og ástæðan var sú að stærstu sveitarfélögin höfðu ráðið til sín jafnréttisfulltrúa í fullt starf, á meðan t.d. ráðuneyti réðu jafnréttisfulltrúa aðeins í hálft starf.

 Þrátt fyrir að þessar tölur séu frá árinu 2003, hafa orðið litlar breytingar að ég held. Ég leit snöggt yfir t.d. bankastjórnir sem og stjórn Seðlabankans. Það kom á óvart að það er aðeins ein kona að mér sýndist í bankastjórn Kaupþings og ein sem varamaður og sömu sögu má segja um Landsbankann. Hjá Glitni er engin kona aðalmaður en tvær sem varamenn. Síðan í bankaráði Seðlabankans er aðeins ein kona sem aðalmaður en hins vegar eru þrjár konur sem varamenn. En hvað er til ráða til að ná jafnvægi á milli karla og kvenna sem og launamismuninum? Ekki getum við treyst á stjórnarflokkana sem hafa algjörlega gleymt þessum málaflokki og reyna kannski að bjarga sér, þar sem stutt er í kosningar. Eina ráðið sem ég sé til þess að breyta þessum máli til hins betra er að skipta um ríkisstjórn, og þá sérstaklega að hafa ríkisstjórn sem er með Samfylkingunna í fararbroddi. Ef einhver flokkur getur eytt þessu misrétti, þá er það Samfylkingin með Ingibjörgu Sólrúnu sem fremsta mann. Samfylkingin er jafnréttindisflokkur, það má ekki gleyma því að Ingibjörg Sólrún náði góðum árangri sem borgarstjóri við að uppræta launaleynd að hluta og jafna laun kynjanna. Samfylkingin er eini flokkurinn með kvenkyns formann, fjórir fyrstu þingflokksformenn Samfylkingarinnar voru konur, ef mig minnir rétt. Einnig má ekki gleyma því að önnur hver kona sem settist á alþingi eftir þingkosningar 2003 kom frá Samfylkingunni.

Eitt af merkisviðburðum 20. aldar var innreið konunnar á vinnumarkaðinn, og sú innreið gerði þann mikla hagvöxt sem varð á 20. öldinni að veruleika. Það er mjög furðulegt á 21. öldinni að konan sé ennþá beitt misrétti. Eins og allir vita er þetta misrétti mjög slæmt fyrir samfélag okkar, því það er jú nauðsynlegt að fá sjónarmið beggja kynja. Hins vegar megum við ekki heldur gleyma því að þegar ég er að tala um jafnrétti kynjanna, er ég einnig að hugsa um stöðu einstæðra feðra sem og fæðingarorlof feðra, ég á eftir að fjalla um þau mál betur seinna. Ég hef því miður ekki neina töfralausn á þessu mikla vanda, nema kannski að kjósa Samfylkingunna 12. maí og vona síðan að fleiri geri slíkt hið sama, enda tel ég að flestir Íslendingar séu jafnréttissinnar og eina leiðin til að auka jafnrétti hér á landi er að fella núverandi ríkisstjórn.


Árshátíðarkvíði eða??

promBara að láta vita að ég er á lífi, hef ekki getað bloggað mikið, þar sem ég er að fara í próf á morgun og síðan aftur á föstudaginn. En eins og margir vita, þá er sú tíð komin að árshátiðir eru að ganga í garð, og margir vinnustaðir og stofnanir eru farnar að halda árshátiðir fyrir starfsmenn sína. Núna á laugardaginn, 3 mars verður árshátið í HA, kostar reyndar 4.000 kr. inn, matur innifalinn og hvaðeina. En vandamálið er að ég veit bara ekki hvort ég eigi að fara, og eru nokkrar ástæður fyrir því. Ég t.a.m. komst aðeins einu sinni á fjórum árum á árshátíð í Verkmenntaskólanum. Ástæðurnar fyrir því að ég komst ekki á hinar þrjár voru nokkuð einfaldar, ég var veikur í þessi þrjú skipti. Já, ótrúlegt en satt. Ég mun aldrei gleyma því á fyrsta ári mínu í VMA, og árshátiðinn var í uppsiglingu, ég og nokkrir félagar mínir vorum búinn að planleggja þvílíka skemmtun, og spennan var mikil, enda ætluðum við heldur betur að skemmta okkur. En nei, maður var búinn að panta borð og allt, en þá skyndilega lagðist maður upp í rúm veikur, og missti af allri skemmtuninni, á meðan aðrir skemmtu sér konunglega. Á öðru ári mínu, gerðist það nákvæmlega það sama, við félagarnir vorum búnir að ákveða að ætla að skemmta okkur vel þetta árið, og ég lofaði því sko að verða ekki aftur veikur, og eyðileggja allt. En nei, það ótrúlega gerðist, ég veiktist aftur, sem var mjög pirrandi, síðan að mæta í skólan eftir veikindin og heyra hversu gaman var á árshátiðinni. En allt í lagi, ég vissi að ég ætti eftir tvö ár í skólanum, og ætlaði sko að mæta á þær árshátíðir sem eftir voru. Á þriðja ári mínu ákvað ég að gefa enginn loforð, né að panta borð eða slíkt, ætlaði að gera þetta allt á síðasta snúningi. Passaði mig gífurlega að veikjast ekki, en hvað haldið þið, jú ég veiktist og gat þar af leiðandi ekki mætt á árshátiðinna, enn og aftur þurfti ég að heyra félaga mína lýsa því hversu vel þeir skemmtu sér á árshátiðinni. En á síðasta ári mínu, var ég harðákveðinn að mæta á árshátiðinna, því það hefði verið skrýtið að ganga í skóla í fjögur ár og ekki mæta á eina einustu árshátíð. Ég veiktist þó viku fyrir árshátíðinna, en með hörku skreið ég fram úr rúminnu og mætti loks á árshátíð, reyndar skemmti ég mér nú ekkert rosalega vel, þar sem maður var ennþá eitthvað veikur, en svona er þetta víst.

Eins og ég sagði áðan, er ég að velta fyrir mér hvort maður eigi að fara á árshátíð, reyndar hef ég sjaldan notið mín vel í svona í fínum veislum og annað. Og alltaf þegar ég hef skipulagt að ætla að skemmta mér vel, hef ég oftar en ekki orðið veikur. En maður þarf víst að vera fljótur að hugsa sig um, þarf víst að vera búinn að kaupa miða í síðasta lagi 2 mars. En jæja, þá er þetta tilganglausablogg búið og lesendur geta snúið sér að einhverju gáfulegu. Nema þeir sem lásu ekki þetta blogg, hljóta að vera að gera eitthvað gáfulegra, víst þeir lesa ekki bloggið mitt. Ég ætla allavega að snúa mér aftur að skólabókunum, og mæti með gott blogg á föstudaginn, um leið og prófið er búið.

 

kv,

Sölmundur Karl Pálsson 


ESB fundur UJA

P2240036Í gær héldum við ungir jafnaðarmenn á Akueyri opinn fund um ESB, við buðum Akureyringum tækifæri til að fræðast um ESB, bæði um sambandið sjálft og hvaða ávinning við hefðum af aðild að ESB. Við fengum þá Inga Rúnar Eðvarðsson prófessor og Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði til að halda framsögu. Fundurinn heppnaðist alveg ágætlega að mínu mati, það mættu um 20 manns eða svo, sem er alveg ágætt, þar sem svona fundir eru yfirleitt ekki vel sóttir. En það sem ég var ánægðastur með voru umræðunar sem spunnust eftir framsögu Inga Rúnars og Þorvaldar, og komu fram margar athyglisverðar spurningar og svör. Ég vona að sjálfssögðu að fólkið sem mætti á þennan fund séu eitthvað fróðari um Evrópusambandið, og þá hefur tilgangur fundarins náðst.

Eins og ég sagði kom margt athyglisvert fram í máli Inga Rúnars sem og Þorvaldar Gylfasonar. Ingi Rúnar P2240038fræddi Akureyringa um sambandið sjálft, þ.e.a.s. stofnanir þess sem og uppbyggingu ESB, og á hann hrós skilið fyrir framsögu sína, og skýrði Sambandið mjög vel fyrir fundargesti. Hann fræddi almenning um framkvæmdarráðið, ráðherraráðið, evrópuþingið sem og evrópudómstólin. Einnig kom hann á þeim viðkvæmu málum eins og Sjávarútvegsstefnu ESB og Landbúnaðarstefnu ESB og skýrði hann þær stefnu ESB mjög vel og kom fram að landbúnaðarstefna ESB er ávallt í stöðugri endurskoðun til batnaðar. Byggðamál ESB bar einnig á góma, og fengu Akueyringar að fræðast um hvernig byggðamál eru í ESB, en í máli Inga Rúnars kom fram að stefna ESB í byggðamálum er sú að allir eigi að fá sömu lífsgæði hvar sem þeir eru staddir í sambandinu. Og til að tryggja það, veitir ESB góða styrki til að efla byggðir í löndum og nefndi hann Írland og Skotland sem dæmi. Eins og ég segi á Ingi Rúnar hrós skilið, og má segja að hann hafi slegið í gegn með framsögu sinni.

P2240050Eftir að Ingi Rúnar hafði lokið máli sínu, brýndi Þorvaldur Gylfason rausn sína, og fjallaði um ESB frá öðru sjónarhóli, bæði frá pólitísku sjónarhóli sem og efnahagslegum. Ég reyndar trúi því varla að ég hafi náð að fá hann norður, og Þorvaldur stóð sko undir væntingum og gott betur. Hann er mjög fær í að tala þannig að allir skilji þó svo að hann fari í tæknileg atriði. Þorvaldur líkti ESB við hjónabandi, og vakti sú samlíking mikla kátínu meðal fundargesta, en þar velti hann þeirri spurningu, að það þykir eðlilegt að gifta sig, og með giftinu erum við að deila fullveldi okkar með annari manneskju, og þykir það sjálfssagt mál. Og þá spurði hann fundargesti, af hverju það ætti aðrar reglur að gilda við samvinnu landa? En þegar flestir eru að tala um kosti ESB nefna menn ávallt fyrst Evrunna, og var hann auðvitað sammála að Evran væri kostur, bæði að verðbólga myndi minnka, vextir lækka og að seðlabanki Íslands þyrfti ekki lengur að taka lán til að eiga nóg í gjaldeyrissjóði til að geta borgað skammtímaskuldir. En Þorvaldur taldi að stærsti kosturinn við ESB væri aukinn samvinna í samkeppnismálum. Þorvaldur sagði að ESB væri með mjög öflugt samkeppniseftirlit, sem væru ófeimnir við að rannsaka fyrirtæki, koma í veg fyrir samruna sem myndi hamla samkeppni. Þorvaldur taldi jafnvel að einhver fyrirtæki á Íslandi væru hrædd við ESB vegna aukins eftirlits, því ESB taki hart á okri, en á Íslandi hefur jú okur lengi staðið yfir eins og við almenningur vitum. Andstæðingar ESB hafa oft nefnt að það er meira atvinnuleysi í löndum ESB, og við inngönu í ESB myndi atvinnuleysi hér á Íslandi aukast og verða eins og í Evrópu. En þau rök hrakti Þorvaldur, og benti á að atvinnumál væru sérmál þjóðanna, og þau réðu mestu sjálf atvinnumálum, og því væri atvinnuleysi aðeins staðbundið vandamál.

P2240039En fundurinn gekk að mínu mati mjög vel, og allt gekk upp eins og það átti að ganga upp. Ekki má gleyma að hrósa fundarstjóra fyrir góða stjórn á fundinum. En fundarstjóri fundarins var Margrét Kristín Helgadóttir sem er í 4. sæti á lista Samfylkingar og er jafnframt varaformaður Ungra Jafnaðarmanna á Akureyri. Ég vona svo innilega að fleiri svona fundir um landið allt verða haldnir, og þó svo að aðild að ESB verði ekki aðal kosningamálið, er nauðsynlegt að halda áfram að fræða almenning, þannig að almenningu geti tekið upplýsta ákvörðun þegar þar að kemur.

 

 

kv,

Sölmundur Karl Pálsson 


Umræða um evru - eldri borgarar og brotið blað

Dagurinn í dag var nokkuð fjörugur. Vaknaði í morgun til þess að mæta í skólann. Fór síðan um 11:30 á Hótel Kea á fund um Evruna og landsbyggðina. En á fundinum hélt t.a.m. Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Edda Rós Karlsdóttir forstöðumaður greiningadeildar Landsbanka Íslands og Björgólfur Jóhannsson formaður landssambands útvegsmanna framsögur. Allt voru þetta mismunandi framsögur, en mér fannst nú mest koma til hennar Eddu Rós sem talaði af mikilli þekkingu, enda hagfræðingur að mennt. Ég var ekki hrifinn af framsögu Árna Mathiesen, og mér fannst mjög skrítið að fjármálaráðherra skyldi hafa látið eftir sér að peningastefnan hafi alls ekki virkað sem skildi undanfarið, en hverjum ætli það sé að kenna? Kannski að hluta til seðlabankanum, en þó aðallega vil ég nú einnig kenna lélegri stjórn ríkisfjármála um. Edda Rós kom hins vegar með góða framsögu, sem var virkilega fræðandi, og hún náði að fjalla um evruna á hlutlausan hátt. En eins og oft hefur komið fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu, og Edda Rós staðfesti var það að ef við ætlum að ganga inn í ESB verðum við að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum, ná verðbólgu niður og einnig að ná þessum gríðar viðskiptahalla niður. Reyndar telur Edda að við höfum ekki fullreynt krónuna, og hún vil helst ekki strax taka upp evru enda mjög á móti einhliða upptöku evru. Ég var reyndar ekki hrifinn af framsögu Björgólfs Jóhannssonar, hann byrjaði þó vel, byrjaði að skamma aðeins stjórnvöld fyrir lélega hagstjórn, en síðan féll hann algjörlega í álíti hjá mér þegar hann í raun sýndi Jóni Þorvaldi Heiðarssyni vanvirðingu og í raun sagði hann að Jón hafi rýrt orðspor Háskólans á Akureyri. Vegna ummæla Jóns um að krónan væri versti gjaldmiðillinn fyrir landsbyggðina. En common, ef menn ætla að halda heilbrigðar og málefnalegar umræður, þá eiga menn að sleppa svona skítkasti. Auðvitað hefur Björgólfur rétt til að segja sína skoðun, en hann hafði þá átt að rökstyðja gagnrýni sína betur á hugmyndir Jóns Þórvaldar. En Jón svaraði nú honum Björgólfi nokkuð vel, þó svo að maður sé ekki alltaf sammála Jóni. Þessi fundur dró ekki úr áhuga mínum í að gerast aðili að ESB, því ég tel til langframa er það betra fyrir hagsmuni okkar að vera aðili að ESB heldur en að vera utan þess. En fyrst verðum við að ná jafnvægi í hagkerfinu, og það getur tekið nokkur ár, og fyrsta skrefið í þá átt verður vonandi stigið þann 12. maí, þegar vonandi Samfylkingin kemst til valda.

Síðan fór maður aftur á Hótel Kea, en þar var Samfylkingin með fund um málefni eldri borgara, og var vel mætt. Framstögumenn voru þau Lára Stefánsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Hreinn Pálsson og síðast en ekki síst Össur Skarphéðinsson, og stóðu þau sig öll með prýði. Síðan var einnig fundur um sama mál á Húsavík, en þar voru framsögumenn Örlygur Hnefill Jónsson, Ellert B. Scram að ég held og síðan Varaformaður UJA hún Margrét Kristín Helgadóttir, og ég býst við að sá fundur hafi einnig gengið vel. En það er þörf á miklum bótum fyrir fólkið sem byggði upp þetta samfélag sem við búum við í dag. Það er sorglegt að hjón sem hafa verið t.d. gift í 50 ár, skuli þurfa að skilja að þegar á elliheimili er komið. Einnig þarf að hækka skattleysismörkin, og það strax. Síðan þarf að hækka frítekjumarkið, rétt eins og Samfylkingin leggur til, og margt fleira.

georgia-indianaSíðan á lokum kemur frétt sem ætti að gleðja alla. En í kvöld var brotið stórt blað í sögu körfuknattleiks. En í fyrsta skipti í sögunni dæmdu konur saman með dómarapróf í efstu deild, en þær Indíana Sólveig Marquez og   Georgía Olga Kristiansen dæmdu leik Hauka og Breiðabliks í efstu deild kvenna. Það er bara að vona að þær haldi áfram á sömu braut, og dæmi fleiri leiki saman. Vonandi verða þær fleiri konum hvatning til þess að gerast körfuknattleiksdómarar, enda vantar alltaf dómara, þær hafa sýnt að konur geta líka dæmt körfuknattleik, rétt eins og karlar.

 

 

 

 

 

Sölmundur Karl Pálsson

Mynd tekinn af kki.is

 


Roadtrip til Húsavíkur

Það er oft þannig að unglingar finnast það hallærislegt að fylgjast með stjórnmálum, og þykja þetta oftar en ekki bara þras. En sem betur fer eru einhverjir sem halda áfram að fylgjast með stjórnmálum á unglingsárum og hafa áhuga á stjórnmálum sem er að sjálfssögðu gott. Með sjálfan mig hef ég alltaf haft áhuga á stjórnmálum, og stundum of mikinn, en samt sem áður hef ég aðeins verið skráður í stjórnmálaflokk í átta mánuði eða svo. En þó svo að unglingar séu ekki skráð í stjórnmálaflokk, þarf það ekki að vera að þau hafi ekki áhuga á stjórnmálum.

P1010717Okkur í ungliðahreyfingum var boðið af nemendafélaginu í framhaldsskóla Húsavíkur að koma og kynna fyrir þeim starfið okkar. Það mættu nánast allir frá öllum framboðum, að undanskildum frjálslyndum, en Sigurjón Þórðarson alþingismaður mætti fyrir þeirra hönd. En Margrét Kristín Helgadóttir kynnti starfsemi okkar Ungra jafnaðarmanna, og leysti það verk vel af hendi, eins og alltaf. Eftir kynningu á ungliðahreyfingunum, hófust skemmtilegar umræður, bæði um byggðamál, álver og fleira. í gær sást að þeir unglingar sem mættu í gær höfðu áhuga á stjórnmálum, og því komu margar góðar spurningar. Unglingarnir voru það áhugasamir að það var erfitt að slíta fundinum, sem er að sjálfssögðu í góðu lagi, enda ekki oft sem maður kemur til Húsavíkur. Ferðin var mjög róleg hjá mér, enda var það samkomulag á milli mín og Margrétar að hún sæi um þetta fyrir okkar hönd, enda miklu færari á því sviði en ég.

Annars ætla ég að minna fólk á ESB fundinn okkar Ungra Jafnaðarmanna, sem haldin verður laugardaginn 24 febrúar klukkan 13:30 í Lárusarhúsi. Við erum búin að fá tvo góða fyrirlesara, þá Inga Rúnar Eðvarðsson og síðan Þorvald Gylfason hagfræðing, en ég er mjög ánægður að hafa fengið þá báða til að halda fyrirlestur. Ég hvet þá sem ætla ekki suður á aðalfund kvennhreyfingarinnar Samfylkingarinnar að mæta á þennan fund, og þá sértaklega hvet ég Akureyringa sem og nærsveitamenn að mæta. Enda gott tækifæri að kynnast ESB, og myndað sér málefnalega afstöðu til aðilda að ESB. Einnig hvet ég aðra landsmenn sem ætla til Akureyrar að mæta á þennann fund, og síðan eftir fundinn geta menn farið á skíði eða snjóbretti.

Sölmundur Karl Pálsson


Afmælisdagur.......

Þennann dag árið 1958 fæddist strákur á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. En þessi strákur sem er reyndar orðinn maður í dag heitir Páll Jóhannesson, og er sá ágæti maður, faðir minn. Já, takk fyrir, kallinn er orðinn 49 ára í dag. Fyrir þá sem ekki vita, þá skipar hann einnig 16. sætið á lista Samfylkingarinnar í norð- austur kjördæmi, þurfti að koma þessu að Wink.

En það er ekki aðeins afmælið hans sem verður fagnað í dag, en fyrir 25 árum gengu móðir mín og faðir í hjónaband, og munu því fagna silfurbrúðkaupi í dag, að ég held. Það eru ekki allir sem ná að vera giftir í heil 25 ár, og sumir hafa ekki þá þolinmæði að vera í hjónabandi að það endar það oftar en ekki með skilnaði. Sérstaklega hjá hinu svokallaða ,,fræga" fólki, en á þeim bæ þykir gott að halda úti hjónabandi í nokkra mánuði eða jafnvel bara í nokkrar vikur.

En annars vil ég bara senda föður mínum hamingjuóskir með afmælið, og einnig sendi ég þeim hjónum, móður minni og föður hamingjuóskir með brúðkaupsafmælið.  


Á leiðinni suður

jæja þá er helgin framundan, og margir komust í lang þráð helgarfrí í dag, reyndar var ég kominn í helgafrí í gærWizard. En allavega, margir fara eflaust út að skemmta sér í kvöld, enda alltaf nóg að gera á Akureyri. Hins vegar ætla ég að stinga af, og fara suður yfir heiðar og heimsækja höfuðborg landsins. En sú ferð krefst ávallt mikils hugrekkis að fara til höfuðborg óttans. En síðast þegar ég fór suður, þá var maður undir verndarvæng Möggu og Valdísar, en í þetta skipti þarf maður að treysta á sjálfan sig. Ég mun núna gista hjá þeim Helga og Áslaugu í Sólvallargötunni, því ég ætla ekki að lenda í því aftur að þurfa að bíða í klukkutíma eftir taxa til þess að komast í Breiðholtið fimm um morguninn. Maður lærir á reynslunni. Þar sem maður er formaður ungra jafnaðarmanna á Akureyri í fjarveru Valdísar, þá ætlar maður að skreppa á fund á laugardaginn frá klukkan 10 -16. Það gæti jafnvel verið að maður kíkji síðan seinna um kvöldið á ölstofu suðursins, aldrei að vita. En allavega fer ég í kvöld með flugi suður og kem aftur heim á sunnudagsmorgni.

En í lokin vil ég óska liðsmönnum Röskvu tilhamingju með árangurinn sem þau náðu í gærkvöldi. En þau náðu meirihluta í stúdentaráði HÍ, og náðu þar fimm mönnum inn á meða Vaka náði fjórum en Háskólalistinn fékk engan mann inn, en í fyrra fékk hann einn mann inn. Ég man þegar ég var í HÍ, að það var  mikið um að vera í skólanum þegar styttast fór í kosningar. Svona stúdentapólitík þyrfti að vera til á Háskólanum á Akureyri, því það eru mörg málefni sem við nemendur þyrftum að berjast fyrir. En sem komið er hefur því miður verið lítill áhugi verið fyrir svona stúdentapólitik í HA. En vonandi með tímanum eigi það eftir að breytast, því það eru nefnilega margir hæfileikaríkir pólitíkusar í HA.

kv,

Sölmundur Karl Pálsson 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sölmundur Karl Pálsson
Sölmundur Karl Pálsson
Nemi í samfélags- og hagþróunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þórsari, Nallari, en fyrst og fremst jafnaðarmaður.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband