Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
27.5.2007 | 20:16
Vel heppnuð grillveisla
Í gær tók ég upp á þeirri nýbreytni og bauð nokkrum útvöldum í grillveislu í gær, grillaðar voru pylsur, hunangslegið svínakjöt og kryddaðar svínakotelettur og í eftirrétt voru siðan grillaðir banannar sem fylltir voru með mars súkkulaði og einnig var boðið upp á vanillu ís. Ég bauð foreldrum mínum og yngri systur minni, enda var það faðir minn sem grillaði, enda algjör snillingur á því sviði. Síðan bauð ég honum Einari, en fyrir þá sem ekki vita þá kynntist ég honum í viðskiptafræðinni í Verkmenntaskólanum, í þeirri miklu klíku sem viðskiptadeildinn var í þá daga. Einnig bauð ég henni Valdísi formanni UJA, en henni kynntist ég nú líka í viðskiptafræðinni í VMA, og síðast en ekki síst bauð ég þeim heiðurshjónum Margréti Kristínu og Reyni Alberti ásamt barni þeirra Sunnu Mekkín. En Margréti kynntist ég í gegnum UJA en Reyni kynntist ég í gegnum Háskólann.
En til að gera langa sögu stutta, þá var maturinn tær snilld sem og eftirrétturinn sem auðvitað bregst aldrei. Ég held að grillveislan hafi heppnast ágætlega, þó svo að veðrið hefði ekki verið upp á sitt besta, og því var ekki hægt að borða úti, en það verður bara að bíða betri tíma. Og ekki má gleyma því að Sunna Mekkín dóttir þeirra Möggu og Reynis fór algjörlega á kostum í veislunni. Hins vegar var tilefni grillveislunar tvíþætt, það fyrsta var þetta nokkurskonar afmælismatur, þar sem ég átti afmæli þann 12. maí en þurfti að vinna í undirkjörstjórn og gat því ekki haldið neina veislu eða neitt á afmælisdaginn minn. Seinna tilefnið var bara að þakka fyrir mig. Ég tók erfiða ákvörðum þegar ég ákvað að hætta í hagfræðinni í HÍ og koma heim aftur, mér leið þó vel í Reykjavík en þó vantaði ávallt eitthvað svo að ég gæti fest mig í sessi í Reykjavík. En þetta fólk sem ég bauð í grillveisluna, hefur gert þessa ákvörðun mína að snúa aftur heim, að líklega að minni bestu ákvörðun og ég sé ekki eftir því að fara í Háskólann á Akureyri. Og í raun hefur þetta fólk gert þetta skólaárið eitt af því besta sem ég hef upplifað. Það var gaman að geta aftur horft á Meistaradeildar leiki með Einari, rétt eins og maður gerði þegar maður var í VMA. Síðan er ég mjög ánægður með að Valdís hafi hringt í mig í haust og drifið mig inn í starfið hjá UJA, en það starf hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt, enda kynnst fullt af frábæru fólki. Síðan auðvitað hef ég lært heilmikið af hjónunum Margréti og Reyni, þau hafa sýnt manni að það er hægt að stofna heimili og verið samt í fullu háskólanámi, og staðið sig vel. Reyndar hef ég lært heilmikið af henni Margréti á þessum fáu mánuðum sem ég hef þekkt hana, og síðan hefur Reynir maðurinn hennar sem og aðrir skólafélagar í HA gert skólann skemmtilegan, og nú er aftur orðið gaman að mæta í skólann. Einnig er ég mjög ánægður með að foreldrar mínir skildu hleypa mér aftur inn í húsið þeirra, eftir að hafa flutt að heiman.Allt þetta fólk hefur gert mig þó að betri manneskju, sem hlýtur að vera markmið manns að verða ávallt betri manneskja. En síðan auðvitað vantaði nokkra aðra vini mína, t.d. Helga og Halldór, en þeir báðir búa í Reykjavík, og gátu því ekki komist.
Hins vegar segi ég bara enn og aftur takk fyrir mig, þið eruð frábær! Ég mun eflaust endurtaka þennan leik í sumar þegar veðrið verður betra og maður getur borðað úti.
Kv,
Sölmundur Karl Pálsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.5.2007 | 23:25
Ertu maður eða mús?
Eitt af því sem ég elska við körfuknattleik er þegar leikir eru jafnir og spurningin er hvort leikmaður verði hetja eða skúrkur. Það er alltaf gaman að sjá þegar menn þora að taka af skarið, þegar það heppnast hrósar maður einstaklingi, en ef það klikkar þá blótar maður honum og stundum vorkenni maður honum um leið. En það skemmtilega við íþróttir er að annað hvort ertu maður eða mús og verður því annað hvort hetja eða skúrkur. Sama á við um pólitíkina, annaðhvort ertu maður eða mús.
Tveir stjórnmálamenn koma upp í huga mér þegar ég hugsa um þessi mál, og hvorugur get ég talið sem menn heldur mýs. Báðir hafa þessir menn koma úr röðum Framsóknarflokksins og þeir verða sjaldnast þekktir í Íslandssögunni fyrir hetjudáðir sínar á hinum pólitíska vígvelli. Þessir menn eiga það sameiginlegt að hafa gegnt formennsku í Framsóknarflokknum og eru þetta að sjálfssögðu þeir kumpánar Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson.Halldór Ásgrímsson þekkja nú allir, fyrrverandi utanríkis- og sjávarútvegsráðherra, og einnig var hann Forsætisráðherra í 1 ½ ár. Mér líkaði svo sem ágætlega við kauða, þrátt fyrir að hann talaði ósköp hægt en þó skiljanlega. Hins vegar þegar á reyndi, kikknaði hann í knjánum og fór með skömm út úr forsætisráðuneytinu og úr formannastól framsóknarmanna. Halldór Ásgrímsson tók á sig alla ábyrgð fyrir því afhroði sem Framsóknarflokkurinn galt í sveitarstjórnarkosningunum 2006, sem er fínt. En Halldóri datt líklega aldrei í hug að sýna það hugrekki að sitja áfram sem formaður og rífa flokkinn upp úr öldudalnum, heldur kaus hann að fara auðveldu leiðina með skömm og skildi flokkinn eftir í sárum sem varð orðið að sökkvandi skipi. Maður eða mús?
Hin kumpánann þekkja nú flestir, Jón Sigurðsson tók við af Halldóri og var hlutverk hans að rífa flokkinn upp og bjarga því sem bjarga varð. Hann þóttist við upphaf formennsku sinnar vera kaldur kall, en þegar á reyndi kikknaði hann í hnjánum rétt eins og forveri hans Halldór Ásgrímsson. Nú, eftir Alþingiskosningarnar og ljóst er að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur náðu saman í ríkisstjórn hyggst hann segja af sér sem formaður Framsóknaflokksins. En mér er þá spurn, hélt Jón Sigurðsson virkilega að það tæki nokkra mánuði að rífa flokkinn upp? Eða hefur honum ekki heldur dottið í hug að sýna það hugrekki að sitja áfram þrátt fyrir erfiðleika og sitja áfram sem formaður flokksins og rífa flokkinn upp? Hins vegar ef hann myndi velja seinni kostinn og sitja áfram og rífa flokkinn upp, þá fyrst gæti maður borið virðingu fyrir Jóni Sigurðssyni sem stjórnmálamanni.
En þó eru ekki allir stjórnmálamenn á Íslandi eins og þeir kumpánar Halldór og Jón. Hver man ekki eftir því þegar Ingibjörg hætti sem borgarstjóri og tók sæti á lista Samfylkingar 2003, en náði ekki inn á Alþingi og þurfti að þola stanslausar árásir andstæðinga sína. Hún ákvað að standa á sínu, og í staðinn fyrir að velja auðveldu leiðina þ.e.a.s. að hætta og fara að gera eitthvað annað, þá ákvað hún að velja erfiðu leiðina. Í dag sér hún ekki eftir þeirri ákvörðun, hún er formaður næst stærsta stjórnmálaflokks landsins og er að leiða flokkinn í fyrsta skipti inn í ríkisstjórn. Þarna sýndi hún hugrekki að flýja ekki af hólmi þegar mest á reyndi, og ég er nokkuð viss að hún er mjög stolt af sjálfum sér vegna þessarar ákvörðun sinnar.
Stjórnmálamenn verða að hafa það í huga að það er ekki alltaf rétt að velja auðveldustu leiðina, heldur hljótum við að vilja fara erfiðu leiðina bara af því að hún er erfiðari, taka áskorun. Við verðum ávallt stolt af okkur sjálfum þegar við ljúkum við erfiðu leiðina því við vitum að hún er erfiðari. Og því verðum við að spyrja okkur sjálf af því hvort við séum menn/konur eða mýs? Og hvort við viljum verða hetjur eða skúrkar? Það skiptir engu hvort við erum íþróttamenn eða stjórnmálamenn, eða bara almennur borgari að taka ákvarðanir í daglegu lífi. Að velja erfiðari leiðina af því að hún er erfiðari sýnir hugrekki, sem hver og einn vill sýna, og svo þegar okkur tekst tiltekið verkefni þá fáum við þessa góðu tilfinningu sem er að ljúka erfiðu verkefni og þá getum við sagt ,, mér tókst það, komið með næsta verkefni.
Sölmundur Karl Pálsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 21:52
Ný ríkisstjórn í mótun og efnilegar Stjórnmálakonur
Það hefur ekki farið fram hjá mörgum viðræður Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks um stjórnarmyndun, og margir hafa spurt mig um hvað mér finnst um þessa tilvonandi ríkisstjórn. Ég er hins vegar mjög sáttur, og gaman að sjá hversu skynsamur Geir H. Haarde var að snúa sér frekar að Samfylkingunni heldur en að viðhalda samstarfi við Framsókn eða að hefja viðræður við VG. Mér hefur oft fundist Sjálfstæðisflokkurinn álítlegri kost í stjórnarsamstarfi heldur en VG, því málefni Sjálfstæðisflokks eru nær okkur í Samfylkingunni heldur en málefni VG. En auðvitað hefði ég viljað að Samfylkingin hefði fengið þá kosningu að hún hefði getað leitt stjórnarumræðurnar en ekki Sjálfstæðisflokkurinn, en þetta vildu kjósendur og því verðum við að hlíta. Hins vegar myndi þessi ríkisstjórn hafa góðan meirihluta og ættu því vonandi að geta komið góðum málefnum í gegn. Það verður auðvitað spennandi að sjá þá tilvonandi stjórnarsáttmála flokkana, en ég auðvitað vona að báðir flokkarnir hafi stöðugleika að sjónarmiði, því það er eitt af velferðarmálum sem þarf að vera í lagi. Mér finnst einnig skrítið að menn séu ávallt að reyna að finna eitthvað nafn á þessari nýju ríkisstjórn, en fyrir mér skiptir það bara engu máli hvaða nafn hún á að bera, og vona að hún verði bara dæmd af verkum sínum og engu öðru. En það sem mér finnst hve mest spennandi að sjá verður skipting ráðherraembættana. Ég tel það nokkuð ljóst að Geir H. Haarde verði forsætisráðherra og hún Ingibjörg Sólrún líklega utanríkisráðherra, hitt allt óljóst að mínu mati. Ég hef þó þá ósk að Ágúst Ólafur fái fjármálaráðuneytið, því ég treysti honum fullkomlega í það embætti og veit að hann myndi sinna því embætti virkilega vel. Síðan auðvitað vona ég að Kristján Möller fái samgönguráðuneytið, en er þó ekki ýkja bjartsýnn en maður veit aldrei hvað gerist. Einnig væri það frábært ef Katrín Júlíusdóttir fengi ráðherraembætti, enda er þar ungur og öflugur þingmaður á ferð sem myndi sóma sig vel sem ráðherra. En þetta er víst ekki í mínum höndum, en ef Ingibjörg og félagar lenda í vandræðum með ráðherravalið, þá vita þau e-mailið mitt og ég skal leysa þetta. En loksins sýnist manni að við fáum frjálslynda jafnaðarmanna stjórn. En eitt veit ég þó, ef þessi stjórnarmyndun gengur upp þá mun Samfylkingin stækka enn frekar og Ingibjörg Sólrún á eftir að blómstra þegar hún kemst aftur við völd og við fáum að sjá þá Ingibjörgu sem stjórnaði borginna að miklum myndarskap.
Úr einu í annað, ég les á hverjum degi Morgunblaðið og dagurinn hjá mér byrjar ekki fyrr en ég hef lesið Morgunblaðið svo einfalt er það. Reyndar hef ég þann vana að ég les aldrei Reykjavíkurbréfið, ég les aðeins íþróttafréttir, almennar fréttir og aðsendar greinar. Og í Morgunblaðinu í morgun las ég athyglisvert viðtal við einn efnilegan stjórnmálamann á Íslandi, en þetta var viðtal við hana Kristrúnu Heimisdóttur. Margt fróðlegt kom fram í viðtalinu, og ekki ætla ég að reifa það allt, hins vegar bendi ég fólki á að lesa viðtalið við Kristrúnu og henda reykjavíkurbréfinu í ruslatunnunana. En fyrir þá sem vita ekki hver Kristrún er þá er hún varaþingmaður í Reykjavík og er menntaður lögfræðingur. En fyrir þá sem fylgjast með íþróttum eins og ég þekkja hana kannski best sem gamall leikmaður KR í kvennaknattspyrnunni, en hún byrjaði að spila með meistaraflokki KR aðeins 10 ára gömul en hætti að mig minni um 1993 þegar hún var aðeins 22 ára. Fyrir fróðleiksfúsa spilaði hún 154 leiki með KR ef mig minni og skoraði í þeim 30 mörk sem telst mjög gott record, en endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál. En Kristrún Heimisdóttir er gott dæmi um alla þá efnilegu stjórnmálakonur sem Samfylkingin hefur í röðum sínum. Má nefna hina hamingjusömu skonsu MögguStínu, Katrínu Júlíusdóttur, Bryndísi Ísfold Hlöðverðsdóttur og fleiri öflugir stjórnmálakonur sem eiga eftir að láta vel í sér heyra á næstu árum. Sölmundur Karl Pálsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.5.2007 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 14:10
Tími fyrir breytingar
Ég á ennþá erfitt með að trúa því að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi verið í 12 ár samfleytt í ríkisstjórn, og Sjálfstæðisflokkur hefur verið í ríkisstjórn í 16 ár. Þurfum við ekki að breyta til? Nú er tími fyrir breytingar, við þurfum þann 12. maí að koma núverandi ríkisstjórn frá, svo að við getum byggt um það velferðarkerfi sem við öll viljum, og það örugga efnahagsumhverfi sem við öll óskum eftir. Breytum rétt þann 12. maí og setjum X-ið fyrir framan S-ið.
kv,
Sölmundur Karl Pálsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2007 | 20:55
Spennandi súpufundur Þórs á morgun
Þar sem maður er á fullu í prófum, hefur maður haft lítinn tíma til að skrifa og annað, en aðeins tvo próf eftir þannig að þetta er alveg að hafast hjá manni. Hins vegar ætla ég að minna fólk sem statt er á Akureyri eða Eyjafjarðarsvæðinu á spennandi súpufund Þórs á morgun. Umræðuefni fundarins verður skýrsla hennar Þórdísar Lilju Gísladóttur ,, hagrænt gildi íþrótta í nútíma samfélagi", en gestir fundarins verða fulltrúar allra framboðana í Norðaustur kjördæmi. En fyrir hönd míns flokks, Samfylkingarinnar verður hún Lára Stefánsdóttir, en hún fyrir þá sem ekki vita skipar 3. sæti á lista flokksins í kjördæminu. Aðrir gestir fundarins verða þau Kristján Þór Júlíusson sem skipar fyrsta sæti á lista sjálfstæðisflokks, Höskuldur Þórhallsson sem skipar 3. sætið hjá framsókn, Sigurjón Þ. Þórðarson 1. maður á lista frjálslyndaflokksins, Hörður Ingólfsson sem er oddviti Íslandshreyfingarinnar í kjördæminu og svo loks Dýrleif skjóldal sem skipar að ég held 3. sæti á lista VG. En nánar um súpufundinn má lesa á heimasíðu Þórs. En ég hvet alla til að mæta á þennan fund, en er skýrsla hennar Þórdísar mjög áhugaverð, og sýnir einnig vel þá óréttlætingu í tekjuskiptingu Ríkis og sveitarfélaga. Einnig á Þór hrós skilið fyrir þessa súpufundi, sem er skemmtileg viðbót við þjóðfélagsumræðunna. En enn og aftur hvet ég alla stjórnmálamenn á svæðinu að mæta, sem og þá sem hafa áhuga á íþróttum. ALLIR AÐ MÆTA. Súpufundurinn er klukkan 12:00 á morgun (fimmtudag) og er haldinn í félagsheimili Þórs.
kv,
Sölmundur Karl Pálsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)