11.3.2007 | 16:42
Aukin vernd heimildarmanna
Eignarhald á fjölmiðlum hefur verið eldfimt mál í nokkur ár, og hver man ekki eftir fjölmiðlafárinu 2004? En málið er að það er nauðsynlegt að setja takmörk á eignarhald á fjölmiðlum að mínu mati. Fjölmiðlar skipa stóran sess í nútíma þjóðfélagi, og ekki að ástæðulausu að þeir eru oft kallaðir fjórða valdið. Og það gríðarmikla vald sem þeir hafa á skoðunamyndun almennings er mikið, og eflaust er einhverjir peningamenn tilbúnir að eyða peningum sínum til þess að komast yfir þetta gríðarmikla vald. En hins vegar hefur lítið farið fyrir annari umræðu, sem er ekki síður mikilvæg, og jafnvel mikilvægari í nútíma þjóðfélagi okkar. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki sýnt þessu máli nægan áhuga og hefur Samfylkingin verið eini flokkurinn sem hefur tekið þetta mál upp á sína arma. En þetta mál er vernd heimildarmanna, sem á að tryggja fjölmiðlum möguleika til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings.Fjölmiðlar eiga að veita löggjafa- og framkvæmdarvaldinu aðhald, og eiga ávallt að veita almenningi upplýsingar um hvað valdhafarnir eru að aðhafast. En fjölmiðlar einir geta ekki fengið þessar upplýsingar, og því þurfa þeir ávallt heimildarmenn sem oftar en ekki innanbúðar í tiltekinni stofnun. En því miður á Íslandi er þetta trúnaðarsamband milli blaðamanns og heimildarmanns ekki virt að fullu, og vernd heimldarmanns ekki tryggt. Þegar svo er geta upplýsingar sem eiga að rata til almennings, svo sem spilling innan stjórnkerfis, verða ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir vinnuveitenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. En því miður hefur hvorki Framsókn né Sjálfsstæðisflokkurinn haft áhuga á frjálsri fjölmiðlun né á lýðræði, því heimildarmenn geta verið mikilvægir í lýðræðissamfélagi. En eini flokkurinn sem hefur haft einhvern áhuga á þessu merka máli er Samfylkingin sem hefur lagt frumvarp um vernd heimildarmanna. Fyrst lagði Bryndís Hlöðversdóttir þetta frumvarp fram ásamt fleirum þingmönnum, og nú síðast lögðu Ágúst Ólafur og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar þetta sama frumvarp fram með ýmsum breytingum. En hvað felur þetta frumvarp í sér?
Í fyrstu grein frumvarpsins segir að starfsmönnum fjölmiðla verði ekki skylt að nafngreina heimildamenn sína fyrir dómi ef heimildarmaður hefur krafist nafnleyndar. Hins vegar myndi þetta ekki eiga við ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsis. Einnig mættu starfsmenn fjölmiðla heimilt að neita að leggja fram sönnunargögn fyrir dómi sem hafa að geyma upplýsingar um hver heimildarmaðurinn sé.Í þriðju grein frumvarpsins, bætis við ný málsgrein við 18 gr. laga nr 70/1996, en í frumvarpinu segir að opinber starfsmaður megi víkja frá þagnarskyldu, ef málefnið varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings. Í fjórðu grein frumvarpsins, bætist einnig ný málsgrein við 32. grein um sveitarstjórnarlögum. En í núgildandi lögum er sveitarstjórnarmönnum skylt að gæta þagmælsku, um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. En þessi nýja málsgrein sem myndi bætast við er sú sama og myndi bætast við 18 gr. laga nr 70/1996. En kannski mesta breytingin yrði á 136 gr. hegningarlaga. En í dag má opinber starfsmaður ekki segja frá vitneskju sinni í starfi, ef hann brýtur þá þagnarskyldu, á hann hættu á eins árs fangelsi, og ef hann hefur brotið þagnarskyldu til að afla sér eða öðrum óréttmætts ávinnings, eða noti slíka vitnekju í því skyni, má beita fangelsi allt að þremur árum. En ef þetta frumvarp Samfylkingarinnar fengi brautargengi, myndi ein málsgrein bættast við þessa grein, en hún er þannig að ef upplýsingar hafi verið gefnar í þágu almannaheilla og ríkir hagsmunir hafi verið í húfi skal það refsilaust.
Eins og fyrr segir, verða heimildarmenn að njóta verndar, því það er samfélaginu okkar til hins betra, því í dag þarf gríðarlegt hugrekki og þor fyrir heimildarmenn að láta fjölmiðlum í té upplýsingar sem geta átt erindi í þágu almennings. Hver man ekki eftir Landsímamálinu árið 2002, þar þurfti Halldór Ernir að sýna gífurlegt hugrekki að láta DV í té upplýsingar sem leiddu til þess að upplýst var um trúnaðarbrot gagnvart stjórn Landssímans. Einnig sýndi Byko maðurinn sem kom upp um Árna Johnsen gífurlegt þor að láta fjölmiðla fá upplýsingar. En líklega er frægasta dæmið um slíkar uppljóstranir, sem fram kom í Bandaríkjunum, þegar Dr. Jeffrey Wigand lét Lowell Bergman framleiðanda fréttaþáttanna 60 mínútna, í té upplýsingar um meinta ólöglegra viðskiptahætti í tóbaksiðnaðnum.
Ennþá í dag er uppljóstrari notað oft í neikvæðum tóni, og oftar en ekki er uppljóstrari notað í sömu andrá og svikari. Margir vilja halda því fram að uppljóstrari sé að rjúfa skuldbindingu um hollustu sem byggir á trausti eða trúanaði við fyrirtækið eða stofnuninna sem hann er að vinna fyrir. En ég tel uppljóstrara afar mikilvæga, og stundum og þá sérstaklega í lýðræðisþjóðfélagi, því þeir koma jú oft málum sem varða almannaheill upp á yfirborðið, og oftar en ekki græðir samfélagið á því að málið hafi komið upp á yfirborðið, en uppljóstrarinn lendir oftar en ekki illa úr því.Á Íslandi í dag er mjög erfitt að láta upplýsingar til fjölmiðla, þar sem heimildarmenn fá litla sem enga vernd, og því lítill hvati til að upplýsa um meint brot stofnanna sem varða almannaheill. Það eru aðeins fáir sem búa yfir þeim styrk, að þora að láta fjölmiðla fá upplýsingar sem varða almannaheill, og þessir menn sem þora verðum við að hlúa að, því það er mikil dyggð að taka oft samfélagið fram yfir sjálfan sig.En þá er spurningin, verðum við ekki í lýðræðissamfélagi að passa upp á að mikilvægar upplýsingar komi upp á yfirborðið, og hvað þá ef valdhafar eru að brjóta á almenningi án vitundar almennings? Og þá er eina leiðin að auka vernd heimildarmanna, því það er nógu erfitt fyrir að fá þá til að láta fjölmiðla fá upplýsingar. Því hvet ég næstu ríkisstjórn að klára þetta mál sem fyrst, enda er þetta mjög mikilvægt í frjálsa fjölmiðlun, og ekki síður fyrir lýðræðið. Og þannig tryggja að fjölmiðlar geti fullnægt starfskyldu sína.
Sölmundur Karl Pálsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Facebook
Athugasemdir
Fínn pistill hjá þér.
Páll Jóhannesson, 11.3.2007 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.