18.2.2007 | 22:04
Millidómstig- rétta lausnin?
Það eru nokkrar grunnstofnanir í okkar samfélagi, og ein af þeim helstu er dómskerfið okkar. Í daglegu lífi, erum við í sporum dómara, almenningur dæmir oft fólk út frá útliti eða jafnvel dæmir það út af aðgerðum þeirra. Fólkið sem fá þennan almenningsdóm á sig, getur ekki svarað fyrir sig, og oftar en ekki losnar það aldrei við þennann stimpil sem það fær á sig. Það sem vegur oft hvað þyngst í nútíma þjóðfélagi er sanngjörn málsmeðferð, að allir fái sömu meðferð í dómskerfinu. Við Íslendingar getum oft verið stoltir af dómstólakerfi okkar, þó svo að margir séu ekki alltaf sammála dómum sem falla í hæstarétti. En það má alltaf gera betur, og dómskerfið okkar er ekki gallalaust.
Í dag liggur frumvarp fyrir Alþingi, til breytingar á dómstólalögum, er þar er gert ráð fyrir að fjölga héraðsdómurum úr 38 í 40. Í frumvarpinu kemur fram ný regla sem gerir það að verkum að þrír héraðsdómarar skuli skipa héraðsdóm ef ákærandi neitar sök, og víst er að munnleg sönnurarfærsla muni ráða niðurstöðu dómsins. En málið er í dag, að reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu er ekki virt hér á landi hjá Hæstarétti. Hæstiréttur kallar mjög sjaldan til munnlegrar skýrslutöku, en það hefur þó gerst. En vegna þess að álagið á hæstarréttardómurum myndi aukast mikið við að taka munnlega skýrslutöku, grípa þeir oft til þess ráðs að ómerkja dóm héraðsdóms og vísa málinu aftur heim í hérað. En reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu felur í sér að æðri dómstóll, geti ekki sakfellt mann sem sýknaður hefur verið í undirrétti á grundvelli framburðar hans sjálfs eða vitna, nema dómendur æðri dómstóls hafi sjálfir hlýtt á framburðinn. En samkvæmt Mannréttindadómstóli Evrópu jaðrar þetta við brot á mannréttindasáttmálanum að virða ekki regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. En árið 1998 snéri Hæstiréttur sýknudómi Héraðsdóms og dæmdi einstakling til fanelsisvistar til tveggja ára og þriggja mánaða. En samkvæmt mannréttindadómstóli vilja þeir meina að ákærandi hefði mátt búast við að fara í munnlega skýrslutöku vegna breytts sönnunarmats. En hver er þá lausnin? Er dómsmálaráðherra aðeins að setja plástur á vandamál með því að fjölga héraðsdómurum?
Dómstólaráð og dómsstjóri héraðsdóms Reykjavíkur telja að besta lausnin við að reglan um milliiðalausa sönnunarfærslu við æðri dómstól yrði uppfyllt sé að stofna millidómsstig. Og rökin þeirra fyrir að stofna millidómsstig, er sú að álag héraðsdómara muni aukast við hið nýja frumvarp dómsmálaráðherra, og fjölgun héraðsdómara muni líka seinka meðferð mála, því það er nógu erfitt að finna tíma til aðalmeðferðar sem henti dómara, sækjanda og verjanda, og hvað þá þegar dómararnir verða þrír. Þar að auki telja þeir að ef það eigi að fjölga dómurum, væri jafn gott að stofna nýtt dómstig, fækka þá jafnvel hæstarréttardómurum um einn vegna minna álags með tilkomu nýs dómstigs, og einnig væri hægt að fækka héraðsdómurum um tvo eða svo. En millidómsstig myndi þá einungis sinna sakamálum, en ekki einkamálum, og dómar þessa millistigs væru endanlegir. Þá geta aðilar áfrýjað dómi héraðsdóms til þessa millistigs, og þar myndi fara fram skýrslataka af aðilum að málinu og einnig að rannsóknarúrskurðir kæmu til kasta millidómstigsins. Þannig yrði reglan um milliliðalausa málsmeðferð fullnægt við stofnun millidómstigs. En af hverju hlustar ekki Dómsmálaráðuneytið t.d. á umsagnir dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur sem og dómsstólaráð um frumvarpið?
Jú, svarið er einfalt, einhverjir telja að stofnun millidómsstigs sé of kostnaðarsamt sem og það geti tafið málsmeðferð enn frekar og myndi gera dómskerfið enn flóknara. En þá spyr ég á móti, er ekki dýrt að fjölga dómurum í héraðsdómi, og hvað þá þegar þrír þurfi að vera þegar ákærandi neitar sök, þar að auki mun álag á héraðsdómara aukast enn frekar, og þar af leiðandi frekari tafir á málsmeðferð. Er það ekki kostnaðarsamt?
Ég tel eftir að hafa lesið góða grein eftir Ragnhildi Sverrisdóttur um þetta mál í morgunblaðinu fyrir viku, tel ég að besti kosturinn sé frekar að stofna nýtt millidómsstig frekar en tillaga dómsmálaráðherra í frumvarpinu um að fjölga héraðsdómurum þegar ákærandi neitar sök. Þjóðfélag okkar verður að geta treyst dómskerfinu, og það er grunnur hvers þjóðfélags að þjóðfélagsþegnar eigi rétt á sanngjarnri málsmeðferð, og ef lausnin er að stofna millidómstig þá eigum við að stofna nýtt dómsstig. Eins og ég skrifaði fyrr í vetur, þá þurfum við að bæta lög um dómstóla. Gera dómstóla enn óháðari ríkisvaldinu, t.d. með því að láta Alþingi kjósa um hæstarréttardómara í staðinn fyrir dómsmálaráðherra ráði hæstarréttardómar, þar sem ¾ þingmanna þyrftu að samþykkja ráðningu hæstarrétardómara. Einnig tel ég að við þyrftum að stofna nýtt dómstig til þess að gera málsmeðferð ennþá réttlátari. Eitt megum við þó ekki gleyma, að eitt af grunnstoðum okkar samfélags er sanngjörn málsmeðferð og það þurfum við að standa vörð um. Því hvet ég dómsmálaráðherra að skoða þann möguleika að stofna svokallað millidómsstig eða þá hreinlega hvet ég þá ríkisstjórn sem mun taka við eftir kosningarnar 12. maí að skoða þann möguleika.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:15 | Facebook
Athugasemdir
Sæll
Takk fyrir fróðlegan pistil. Ég get tekið undir margt í honum.
Ágúst Ólafur Ágústsson, 19.2.2007 kl. 12:40
Tek undir þetta líka..... enda vel upp alinn strákur
Páll Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.